Ragnar hlakkar ekki til verkfalla

Formaður VR segir atkvæðagreiðslu ganga vonum framar en hann hlakki …
Formaður VR segir atkvæðagreiðslu ganga vonum framar en hann hlakki ekki til verkfalla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forysta VR fer á milli vinnustaða þessa dagana meðan á atkvæðagreiðslu um verkföll stendur og fundar með félagsmönnum. Mbl.is hafði pata af mjög illa sóttum fundi á stóru hóteli í miðbænum. Enginn starfsmaður mætti og Ragnar á að hafa komið sjálfur að tómum kofunum.

Að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, getur slíkt auðvitað hent. Hann segir það skiljanlegt út frá því að fólk meti frítíma sinn mikils og því geti verið erfitt að fá það á fundi um miðjan dag. Hann hefur þó ekki áhyggjur af dræmri mætingu sums staðar og segir fundina vel sótta annars staðar. Að auki segir hann góða þátttöku í atkvæðagreiðslunni teikn um ánægju með störf forystunnar.

Ragnar er ánægður með þátttökuna í atkvæðagreiðslunni, sem hann segir vera orðna 40% en tekur ekki undir orð Sólveigar Önnu í Eflingu um að hlakka til verkfalla. „Ég get ekki sagt að hlakki í mér að fara í verkföll. Ég vil forðast þau. En við erum nauðbeygð í þessar aðgerðir,“ segir hann. „Við erum í þessu til að reyna að ná samningum. Um það snýst málið.“ Verkföll segir Ragnar vera neyðarúrræði.

Bara eins og í pólitík

Er mbl.is náði tali af honum var hann að halda fjórða fund sinn í dag. Fundirnir eru á milli starfsmanna vinnustaða sem eru í VR og forystu VR sjálfrar og oft trúnaðarmannanna einnig. Ragnar segir mætinguna mismunandi á þessum fundum. „Þetta er bara eins og í pólitík. Það eru oft haldnir fundir þar sem viðmælendur eru þeir einu sem eru í salnum,“ segir hann.

Fundunum er ætlað að upplýsa félagsmenn um framvindu mála í samningaviðræðum og til að upplýsa um verkfallsaðgerðir fyrirhugaðar. Verkfallsaðgerðirnar sem greidd eru atkvæði um ná til 1.000 félagsmanna og þær fyrstu eru 22. mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert