Slæmar aðstæður hótelþerna

Mynd úr safni úr hótelherbergi.
Mynd úr safni úr hótelherbergi. mbl.is/Styrmir Kári

Vinnueftirlitið hefur gefið stjórnendum hótela 239 tímasett fyrirmæli um úrbætur sem varða heilsu og öryggi starfsfólks við hótelþrif. Við könnun og úttekt á aðstæðum þessa hóps kom í ljós að vinnuumhverfi þeirra sem starfa við hótelþrif er að mörgu leyti ábótavant. Fyrirmælin sem gefin voru um úrbætur voru afrakstur þessa eftirlitsátaks.

Vegna aukinnar ferðaþjónustu hefur starfsmönnum gististaða fjölgað mikið. Eftirlitsátak Vinnueftirlitsins sem hófst í lok árs 2017 og lauk í vikunni með útgáfu skýrslu um helstu niðurstöður beindist eingöngu að starfsfólki við þrif.

Heimsótt voru 36 hótel með 10 starfsmenn eða fleiri. Spurningakönnun var lögð fyrir starfsfólk og gerð úttekt á vinnuumhverfi þess. Tilgangurinn var að aðstoða atvinnurekendur við að skapa heilsusamlegt vinnuumhverfi fyrir þennan starfsmannahóp með því að miðla upplýsingum og gefa fyrirmæli um úrbætur þar sem þörf krefði.

Skýrsla Vinnueftirlitsins í heild

Of mikið líkamlegt álag

Niðurstöður könnunar meðal starfsfólks sýndu að langflestir sem vinna við hótelþrif hér á landi eru konur af erlendum uppruna. Meirihlutinn er Pólverjar. Íslenska er aðeins tungumál tæplega 9% starfsmanna. Starfsaldur er skammur, eða rúmlega tvö ár á vinnustað.

Verulega skorti á að skipulegt vinnuverndarstarf í forvarnarskyni færi fram á hótelunum því í tæplega 70% tilvika var engin eða aðeins ófullnægjandi áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn. 

Tæp 68% hótelþerna sögðu samskipti við næsta yfirmann valda þeim streitu og pólskir starfsmenn töldu samskipti á vinnustaðnum verri en íslenskumælandi samstarfsfólk.

Kynferðisleg áreitni í vinnu

Rúmlega 2% hótelþerna telja að heilsu þeirra eða öryggi stafi hætta af ofbeldi eða hótunum í vinnunni. Rannsóknir sýna að erlent verkafólk er líklegra til að upplifa hótanir og ofbeldi á vinnustað auk þess sem það er líklegra til að verða fyrir brotum á réttindum. Rúm 3% segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum og heldur færri telja að vinnufélagar þeirra hafi orðið fyrir slíku. 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert