Segir Isavia skekkja samkeppni

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Kristinn Magnússon

Isavia ohf. hefur með ákvörðunum sem fela í sér fyrirgreiðslu í þágu einstakra flugfélaga skekkt verulega samkeppnisstöðu á flugmarkaði. Þetta fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í ræðu á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær.

Í ræðu sinni gagnrýndi hann þá stefnu sem hann segir yfirvöld hafa ýtt undir sem feli í sér að draga til landsins „ferðamenn sem hafa keypt flugfargjöld langt undir kostnaðarverði, þrátt fyrir að lítil sem engin þjónusta sé innifalin“. Sagði hann að það hefði verið látið viðgangast „að því er virðist, algjörlega eftirlitslaust af yfirvöldum og opinbera hlutafélagið sem rekur Keflavíkurflugvöll virðist hafa spilað með og í raun hvatt til þessarar þróunar. Samkeppnisaðilar hafa fengið að safna upp skuldum á Keflavíkurflugvelli, sem skekkir verulega samkeppnisstöðu á markaði,“ sagði Bogi Nils.

Fullyrðir hann að þessar aðgerðir yfirvalda gangi í berhögg við þá stefnu sem mótuð hafi verið um að fá í auknum mæli til landsins virðisaukandi ferðamenn og að litið yrði til gæða fremur en magns.

„Afleiðingar stefnu- og eftirlitsleysis undanfarinna ára geta orðið sársaukafullar á næstu vikum og mánuðum. Byggðar hafa verið upp væntingar um að hingað muni streyma ferðamenn vegna ódýrra flugfargjalda um ókomin ár.“

Segir hann að fjárfestingar í ferðaþjónustunni hafi tekið mið af þessum veruleika og að ráðist hafi verið í margar slíkar án heildstæðrar stefnu. „Þessi þróun er ekki sjálfbær, hvorki fyrir hagkerfið, náttúruna né ferðaþjónustuna í heild sinni.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert