Verkföll fram undan hjá Eflingu

92% þeirra sem tóku afstöðu greiddu atkvæði með verkföllum.
92% þeirra sem tóku afstöðu greiddu atkvæði með verkföllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talningu í atkvæðagreiðslu um verkföll hjá hluta félagsmanna Eflingar lauk um hádegi í dag. Félagsmenn Eflingar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða boðun verkfalla meðal starfsfólks á hótelum, í rútufyrirtækjum og hjá Almenningsvögnum Kynnisferða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Heildarkjörsókn nam um 35% og náði í öllum tilfellum 20% lágmarksþátttökuþröskuldi. Um 92% þeirra sem tóku afstöðu samþykktu verkfallsboðanir, eða 1.127. 103 greiddu atkvæði gegn verkfallsboðunum. Þá tóku 33 ekki afstöðu.

„Við erum afar ánægð með þátttöku og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Félagsmenn okkar eru á einu máli um að aðgerða sé þörf. Kröfur okkar eru sanngjarnar og félagsmenn eru tilbúnir að fylgja þeim eftir af krafti,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í fréttatilkynningunni.

Fyrsta vinnustöðvunin 22. mars

Á vef Efl­ing­ar seg­ir að fyrsti hluti aðgerðanna sé hefðbundið verk­fall þar sem ekki er mætt til vinnu á ákveðnum dög­um frá miðnætti til miðnætt­is. Fyrstu verk­fallsaðgerðir þess hlut­ar eru boðaðar í sól­ar­hring 22. mars, síðan í tvo sól­ar­hringa 28.-29. mars og þrjá sól­ar­hringa dag­ana 3.-5. apríl, 9.-11. apríl, 15.-17. apríl og 23.-25. apríl. Þá er boðað ótíma­bundið verk­fall frá 1. maí.

Ann­ar hluti aðgerðanna felst í ör­verk­föll­um eða vinnutrufl­un. Frá 18. mars til 30. apríl munu rútu­bíl­stjór­ar ein­göngu vinna þau störf sem til­greind eru í starfs­lýs­ingu. Frá 23. mars til 30. apríl munu bíl­stjór­ar ekki rukka í stræt­is­vagna né telja farþega og frá 6. apríl mæta þeir bíl­stjór­ar ekki til vinnu fyr­ir há­degi.

Ann­ar hluti aðgerða hót­el­starfs­manna felst í því að vinna eng­in störf sem ekki eru til­greind í starfs­lýs­ingu frá og með 18. mars til 30. apríl, frá 23. mars til 30. apríl sinna þeir ekki kló­settþrif­um eða þrif­um á sam­eig­in­leg­um rým­um. Frá 30. mars til 30. apríl verða her­bergi gesta sem ekki hafa tékkað sig út ekki þrif­in og ekki starfað við morg­un­verðarþjón­ustu. Eng­in þvottaþjón­usta verður frá 26. apríl til 30. apríl. Aðgerðirn­ar taka til 40 hót­ela á höfuðborg­ar­svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert