Piparúða beitt á Austurvelli

Frá Austurvelli á sjöunda tímanum í kvöld. Nokkrir tugir mótmælenda …
Frá Austurvelli á sjöunda tímanum í kvöld. Nokkrir tugir mótmælenda hafa verið fyrir framan Alþingi frá því kl. 15 í dag. mbl.is/Eggert

Til átaka hefur komið á milli mótmælenda úr röðum flóttafólks og lögreglu á Austurvelli í dag og hefur lögregla meðal annars beitt piparúða gegn mótmælendum. Þetta eru fjórðu mótmælin sem skipulögð hafa verið af flóttafólki á Íslandi og stuðningsfólki þess síðasta mánuðinn, en síðast var mótmælt við Útlendingastofnun í síðustu viku. Þar fóru mótmælin friðsamlega fram.

Boðað var til mótmælanna vegna beiðni hælisleitenda á Íslandi um fund með dómsmálaráðherra, forsætisráðherra, velferðarráðherra og fulltrúum Útlendingastofnunar, sem ekki hefur verið brugðist við, að þeirra sögn.

Lögreglumenn hafa fylgst með mótmælunum í dag.
Lögreglumenn hafa fylgst með mótmælunum í dag. mbl.is/Eggert

Á fundinum segjast hælisleitendur vilja ræða eftirtaldar fimm kröfur, samkvæmt því sem fram kemur á Facebook-síðu Refugees in Iceland:

Að brottvísunum hælisleitenda verði hætt, að allir hælisleitendur fái efnismeðferð hér á landi og að Dyflinnarreglugerðin sé ekki notuð, að hælisleitendur fái rétt til að vinna og njóti jafns aðgangs að heilbrigðisþjónustu, auk þess sem flóttamannabúðum á Ásbrú verði lokað.

Er ljósmyndari mbl.is leit við á Austurvelli á sjöunda tímanum …
Er ljósmyndari mbl.is leit við á Austurvelli á sjöunda tímanum voru mótmælendur að undirbúa kvöldhressingu og fækkað hafði í hópi þeirra sem þar voru. mbl.is/Eggert

Síðdegis í dag kom til ryskinga á milli mótmælenda og lögreglu og voru tveir handteknir samkvæmt frásögn mótmælenda, auk þess sem piparúða var beitt, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan.

Tjölduðu og virtust vera að hlaða í bálköst

Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í beinni útsendingu frá Austurvelli í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að til stimpinga hefði komið um kl. 15 í dag, þegar mótmælin hófust, þar sem mótmælendur hefðu tjaldað á Austurvelli, sem væri öllum bannað.

Síðan hefði aftur komið til átaka síðar, þegar lögreglumönnum hefði sýnst sem mótmælendur væru að hlaða í bálköst, með pappakössum og vörubrettum.

Arnar Rúnar staðfesti að þá hefði lögregla beitt piparúða og handtekið tvo úr röðum mótmælenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert