Niðurstaðan óvænt og fordæmalaus

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Hari

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segist njóta trausts innan ríkisstjórnarinnar og að hún muni ekki segja af sér í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða. Hún segir að verið sé að fara yfir dóminn og skoða hvort málinu verði vísað til svokallaðs yfirréttar. 

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst að þeirri niður­stöðu í morgun að ís­lenska ríkið væri brot­legt í Lands­rétt­ar­mál­inu svo­kallaða og að dóm­ara­skip­un dóms­málaráðherra í rétt­inn hefði brotið gegn mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um. Grein­in sem brotið var gegn er sú sjötta sem fjall­ar um rétt ein­stak­linga til rétt­látr­ar málsmeðferðar fyr­ir dómi.

Sigríður segir í samtali við mbl.is, að hún hafi verið að fara yfir dóminn með sérfræðingum ráðuneytisins í morgun.

„Ég er alls ekki búin að því, en það vekur athygli mína að dómurinn er klofinn. En ég verð að viðurkenna það að niðurstaða meirihlutans er óvænt og hún er líka fordæmalaus,“ segir Sigríður og tekur fram að þetta sé einnig mat þeirra sérfræðinga sem hafa komið að málinu innan ráðuneytisins. 

Hún tekur fram að í áliti meiri- og minnihlutans komi fram mjög andstæð sjónarmið, og því þurfi að skoða dóminn, sem sé mjög yfirgripsmikill, afar vel. 

Hafa þrjá mánuði til að skjóta málinu til yfirréttar

Sigríður bætir því við að eitt af því sem verið sé að skoða hvort það sé ekki eðlilegt að skjóta málinu til svokallaðs yfirréttar dómstólsins (e. grand chamber). Aðspurð segir Sigríður að hún hafi þrjá mánuði til að vísa málinu til yfirréttarins. 

Spurð hvaða áhrif niðurstaða dómstólsins hafi á störf Landsréttar, segir Sigríður að dómstóllinn sé starfhæfur. „Það er auðvitað dómstólsins sjálfs að taka afstöðu til þess,“ segir Sigríður og vísar til þess að málum í Landsrétti hafi í dag verið frestað á meðan farið er yfir dóminn.

„Það liggur hins vegar alveg fyrir afstaða íslenskra dómstóla til skipunar dómara. Hún er alveg skýr. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að skipunin væri lögmæt. Og það er nú það sem gildir hér á landi,“ segir ráðherra og bætir við að allar þrjár greinar ríkisvaldsins hafi komið að skipuninni með einum eða öðrum hætti. 

Telur ekki tilefni til að segja af sér

Þingmenn stjórnarandstöðunnar á Alþingi hafa kallað eftir því að Sigríður segi af sér tafarlaust. Aðspurð segir hún að það hafi verið fyrirsjáanlegt, sama hver niðurstaðan hefði orðið.

„En nei, ég tel ekki tilefni til þess að ég segi af mér í kjölfar þessa dóms. Ég stend auðvitað með íslenskum dómstólum og það liggur fyrir að þeir hafa kveðið upp um lögmæti þessarar skipunar. Ég hef hins vegar frá upphafi bent á það að það sé annmarki á þessar málsmeðferð allri við skipan dómara. Um það er ég alveg sammála Mannréttindadómstólnum og Hæstarétti að því leyti sem hann hefur eitthvað fjallað um það í sjálfu sér.“

Dómararnir löglega skipaðir

Sigríður bætir við að vinna við að endurskoða málsmeðferðina sé löngu hafin, eins og hún hafi strax boðað.

„Það breytir því ekki hins vegar að dómararnir sem um ræðir þeir eru löglega skipaðir, með þátttöku Alþingis, forseta Íslands og dómstóla sem síðan endanlega dæmdu skipanina lögmæta.“

Spurð hvort hún njóti stuðnings ríkisstjórnarinnar svarar Sigríður: „Já, já, ég veit ekki betur.“ Hún segir ennfremur að hún muni fara yfir málið og kynna dóminn á fundi ríkisstjórnarinnar við fyrsta tækifæri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert