Ríkisstjórnin ræðir Landsréttarmálið

Búið er að stilla upp myndavélum fyrir utan stjórnarráðið.
Búið er að stilla upp myndavélum fyrir utan stjórnarráðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnarfundur stendur þessa stundina yfir í Stjórnarráðshúsinu en boðað var til hans í kjölfar atburða gærdagsins þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra tilkynnti að hún ætlaði að stíga til hliðar úr ráðherrastóli á meðan brugðist væri við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu á þriðjudagsmorguninn þar sem meðal annars var fjallað um skipun dómara við Landsrétt.

Til stóð upphaflega að ríkisstjórnarfundurinn færi fram síðdegis í gær eftir blaðamannafund Sigríðar samkvæmt heimildum mbl.is en hætt var við það skömmu áður en fundurinn átti að fara fram. Venjulega er fundartími ríkisstjórnarinnar á föstudögum.

Talið er líklegt að tilkynnt verði eftir fundinn hver taki við dómsmálunum í ríkisstjórninni í kjölfar ákvörðunar Sigríðar en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði við fjölmiðla í gær að tveir valkostir væru líklegastir. Annaðhvort að annar ráðherra tæki við dómmálunum samhliða eigin embættisverkum eða einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem ekki er ráðherra.

mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert