Börnin í Sýrlandi ekki gleymd

AFP

Síðan stríðið í Sýrlandi braust út í mars 2011 hefur Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF á Íslandi, safnað um 100 milljónum króna í neyðaraðstoð fyrir sýrlensk börn. Nánast allt þetta fé hefur komið frá einstaklingum og Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF, segir að fénu hafi verið varið til ýmissa þátta neyðaraðstoðarinnar, m.a. bólusetninga og vatns.

AFP

„Íslendingar vilja almennt hjálpa til þegar þeir vita af neyð sem þessari og láta sig málefnið varða. Það er ljóst að börnin í Sýrlandi eru ekki gleymd hér á landi,“ segir Steinunn.

Í dag eru átta ár síðan stríðið hófst, áætlað er að a.m.k. 360.000 Sýrlendingar hafi fallið í átökunum og óvíst er um afdrif um 200.000 til viðbótar. Í fyrra voru staðfest rúmlega 1.100 dauðsföll barna í landinu sem rekja má til átakanna, en Sameinuðu þjóðirnar telja að talan sé mun hærri. Jarðsprengjur eru ein helsta orsök dauðsfalla og meiðsla hjá börnum, en vetrarhörkur og takmarkað aðgengi lækna og hjálparstofnana að sumum svæðum ógnar einnig lífi barnanna.

AFP

 „Við höfum sérstaklega miklar áhyggjur af ástandinu í Idlib-héraði í norðvesturhluta Sýrlands. Á síðustu vikum hafa um 60 börn látið lífið vegna vaxandi átaka í héraðinu,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

„Aðstæður fjölskyldna í Rukban, við landamæri Jórdaníu, eru skelfilegar þar sem aðgengi hjálparstarfsfólks hefur verið mjög takmarkaður og fólkið sem þar er býr við ömurlegar aðstæður og getur hvergi farið. Nýfædd börn deyja vegna þess að enga læknisþjónustu er að fá,“ segir Bergsteinn.

Versnandi skilyrði í Al-Hol flóttamannabúðunum eru einnig mikið áhyggjuefni. Í flóttamannabúðunum búa nú 65.000 manns, þar af 240 fylgdarlaus börn. Flóttamannabúðirnar eru yfirfullar af konum og börnum sem flúðu bardaga í austurhluta landsins, langa vegalengd yfir eyðimörkina. Þau komu þangað bæði vannærð og örmagna.

„Það er ótrúlega sorglegt að þurfa að færa þessar fréttir frá Sýrlandi núna áttunda árið í röð. Með hverjum deginum sem líður er verið að ræna milljónir barna barnæsku sinni og óttinn við óvissu framtíðarinnar vofir yfir. Það er löngu orðið tímabært að segja stopp,“ segir Bergsteinn enn fremur.

AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert