Farsímasaga Íslands til sölu

Símarnir eru um 400 eintök en Gylfi hefur safnað þeim …
Símarnir eru um 400 eintök en Gylfi hefur safnað þeim síðan 1998. Hér sést hluti þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Gylfi Gylfason, fyrrverandi eigandi Símabæjar, er með farsímasögu Íslands til sölu. Hann auglýsti safnið á Facebook-síðunni „Brask og brall“ í vikunni en safnið er óselt. Í því eru um 400 farsímar, þar á meðal fyrstu farsímarnir sem fluttir voru til Íslands og Gylfi segir að seljist á tugi þúsunda á Ebay. 

„Ég byrjaði að safna þessu 98 eða 99 því þá sá ég að símarnir voru í svo mikilli útlitssókn, sérstaklega Nokia. Það voru að koma fram svo mörg fáránleg módel og maður hugsaði með sér að það sem væri flott í dag yrði hallærislegt eftir tvö ár. Þá hugsaði ég með mér að þetta myndi hafa eitthvert söfnunargildi. Svo safnaði ég þessu áfram á meðan ég var í rekstri og svo sit ég uppi með þetta núna,“ segir Gylfi og hlær.

Farsímasaga á hálfa milljón

Gylfi hefur fengið tilboð í staka síma en hann vill einungis selja safnið í heilu lagi. Lægsta verð er 500.000 krónur. „Þetta er safn og ég vil að það njóti sín í heild sinni. Þetta yrði rosalega flott innrétting, til dæmis á bar. Sem dæmi þá var ég í lítilli búð niðri á Skólavörðustíg um daginn sem heitir Fótógrafí og er troðfull af myndavélum. Kommentin á Trip Advisor eru á þann veg að þetta gamla dót skapi ákveðna upplifun svo ég hugsaði alltaf með mér að það væri líka hægt að skapa rosa upplifun í kringum símana.“

Gylfi Gylfason í Símabæ á meðan búðin var enn opin.
Gylfi Gylfason í Símabæ á meðan búðin var enn opin. mbl.is/Styrmir Kári

Gylfi segist hafa sýnt safnið í Símabæ nokkrum sinnum en það hafi dregið of marga að. „Þá var enginn friður. Það var svo mikil nostalgía sem kom í liðið að þetta var bara orðin of mikil vinna. Þetta er dót sem allir tengja við. Það nota allir síma og fólk tengir þá við minningar. Fólk var farið að segja mér ævisögurnar sínar eftir að það sá einhver eintök af símum sem það hafði átt. Fólk hafði gaman af þessu og upplifði þetta sterkt.“

Símasafnið inniheldur einungis þá síma sem voru seldir hérlendis. „Þetta er svo skemmtilegt safn, fólk sem er orðið fertugt er búið að nota svo mikið af þessum tækjum. Þetta eru tækin sem Íslendingarnir notuðu. Þetta er farsímasagan okkar,“ segir Gylfi.

Gylfi hefur ekki viljað selja staka síma enda eigi safnið …
Gylfi hefur ekki viljað selja staka síma enda eigi safnið að njóta sín sem heild. Ljósmynd/Aðsend

Sögunni lokað með Samsung S

Nú eru símar farnir að líkjast hver öðrum meir en áður og Gylfi ákvað að loka sögunni fyrir stuttu síðan. „Ég tek símasöguna frá NMT og safnið endar í fyrstu snjallsímunum frá Samsung. Ég hugsaði með mér þegar þeir komu með fyrstu S-módelin að þá væri þetta búið, þá yrðu þetta bara svartar klessur á vegg, bara mismunandi stórar. Ég lokaði því sögunni með S-módelunum.“

Gylfi segir að það hafi mikil áhrif á fólk að …
Gylfi segir að það hafi mikil áhrif á fólk að sjá síma sem það sjálft hafi átt. Ljósmynd/Aðsend

Gylfi segist hafa ákveðið að safna bara hlutum sem gætu nýst í framtíðinni. „Versta tegundin af söfnurum eru þeir sem safna og safna og drepast svo frá þessu öllu saman. Ég hef frekar viljað safna einhverju sem gæti falið í sér verðmæti og einhver gæti haft áhuga á síðar meir.“

Aðspurður hvort söfnunin haldi áfram ef safnið selst ekki segir Gylfi: „Ég verð að viðurkenna að þegar hent er í mann símum þá segir maður ekki nei. Ég mun geyma þetta því ég er að passa upp á safnið og hef þá trú að einhver uppgötvi möguleikana í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert