Aulalegt að hafa skiltið ekki rétt

Neðst á skiltinu eru röngu merkingarnar. Þar sem stendur 70 …
Neðst á skiltinu eru röngu merkingarnar. Þar sem stendur 70 á tveimur stöðum á að standa 80. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Ljósmynd sem var nýlega tekin af umferðarskilti á Suðurlandsvegi, rétt ofan við Rauðavatn á leiðinni frá Reykjavík, sýnir 70 kílómetra hámarkshraða fyrir bifreiðar með eftirvagna eða skráð tengitæki þegar hámarkshraðinn á að vera 80 km á klukkustund.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segist halda að mistök hafi verið gerð á þessu eina skilti og að þessi ranga merking hafi staðið á skiltinu árum saman og jafnvel áratugum.

„Það er mjög aulalegt að hafa þetta ekki rétt. Það er eiginlega stórfurðulegt að það hafi ekki verið gerðar athugasemdir fyrr,“ segir hann og nefnir að bætt verði úr mistökunum.

Hann vitnar í 38. grein umferðarlaga þar sem kemur fram að ökuhraði bifreiðar með eftirvagn eða skráð tengitæki megi aldrei vera meiri en 80 km á klst. Ökuhraði annarra bifreiða, sem eru meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, megi heldur ekki vera meiri en 80 km á klst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert