Ekkert vor í kortunum

Á miðvikudag klukkan 21:58 verður sólin beint yfir miðbaugi og …
Á miðvikudag klukkan 21:58 verður sólin beint yfir miðbaugi og vorjafndægur. mbl.is/Árni Sæberg

Útlit er fyrir að suðvestanátt haldi sér hið minnsta fram á föstudag með svölu veðri og einnig éljagangi um sunnan- og vestanvert landið. Á miðvikudag klukkan 21:58 verður sólin beint yfir miðbaugi og jafndægur. Dagarnir eru að lengjast en ekkert vor er enn í kortunum enda er enn þá vetur, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Sunnanátt í dag, 5-13 m/s í fyrstu og stöku skúrir en 13-20 m/s síðdegis og rigning eða súld, hvassast um norðvestanvert, en þurrt norðaustan til á landinu. Hægt hlýnandi veður, hiti 3 til 8 stig í kvöld. 

Í nótt snýr vindur sér til suðvesturs, víða 10-15 m/s, og fer kólnandi, hiti um og undir frostmarki annað kvöld. Á morgun má því búast við skúrum og síðar éljum en áfram þurru veðri norðaustanlands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Sunnan 8-15 og stöku skúrir, en hægari og þurrt austanlands. Sunnan 13-20 m/s síðdegis, hvassast um landið norðvestanvert, og víða rigning eða súld, en úrkomulítið norðaustan til á landinu. Hlýnandi, hiti 3 til 8 stig síðdegis. 

Suðvestan 10-18 m/s á morgun, hvassast syðst á landinu og slydduél eða él, en léttskýjað austanlands. Kólnar heldur.

Á þriðjudag:
Suðvestan 10-18 m/s, hvassast við suðurströndina. Skúrir og síðar él, en léttskýjað austanlands. Hiti 1 til 5 stig, en nálægt frostmarki um kvöldið. 

Á miðvikudag:
Suðvestan 8-15 m/s og él en þurrt og bjart norðaustan til. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust syðst. 

Á fimmtudag og föstudag:
Suðvestanátt, víða 8-13 en 13-18 á Vestfjörðum með köflum. Éljagangur, en léttskýjað norðaustanlands. Frost 1 til 6 stig, en frostlaust með suðurströndinni. 

Á laugardag:
Hvöss suðvestanátt og él, en þurrt um landið norðaustanvert. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt og bjart veður, en dálítil él norðanlands. Kólnar talsvert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert