Reyna að múta nemendum með pítsu

Þátttakendur í loftslagsverkfallinu á Austurvelli síðasta föstudag. Þeir krefjast aðgerða …
Þátttakendur í loftslagsverkfallinu á Austurvelli síðasta föstudag. Þeir krefjast aðgerða í loftslagsmálum strax. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þótt skiljanlegt sé að einhverjir skólar vilji ekki hvetja til skróps er annað að taka beina afstöðu gegn verkföllum skólabarna fyrir loftslagið. Þetta kemur fram í athugasemdum sem Landssamtök íslenskra stúdenta hafa sent frá sér. Eitt sé „að börn fái skróp í kladdann ef þau eru fjarverandi (eins og venjan er) en annað að hóta, múta eða gera lítið úr börnunum sem velja að gerast virkir borgarar og láta sig varða stærsta og alvarlegasta vandamál samtímans,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Þar kemur fram að skipuleggjendum verkfallsins hafi borist til eyrna að starfsfólk einhverra grunnskóla hafi lagst með virkum hætti gegn því að börn og unglingar mættu í verkfallið og jafnvel gengið svo langt að múta börnunum með pizzu ef þau færu ekki. Þá hafi börn greint skipuleggjendum verkfallsins frá að þau hafi fengið þau skilaboð frá starfsmönnum skóla að af því að þau séu bara börn þá hafi mæting þeirra engin áhrif.

„Þetta er mjög miður, en sem betur fer eru dæmi um skóla þar sem börnin fá jákvæð viðbrögð frá skólanum og jafnvel hafa einhverjir kennarar mætt með bekki sína á verkfallið,“ segir í fréttatilkynningunni.

Skipuleggjendur göngunnar segjast harma þessi viðbrögð. Skynsamlegra væri ef skólarnir gripu tækifærið og styddu við lýðræðislega þátttöku barna, annaðhvort með því að ræða við þá um verkfallið eða mæta saman á það. „Jafnvel má telja það sem svo að þátttaka í loftslagsverkfalli falli undir nánast alla grunnþætti aðalnámskrár grunnskólanna, en þeir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.“

Grunnskólanemendur þurfi kjark til að kjósa að skrópa í skóla til að taka þátt í baráttunni fyrir tryggri og bjartari framtíð. Með því sýni börnin hins vegar samfélagslega meðvitund og ábyrgð, sem sé tákn um að skólum hafi tekist vel til við að mennta einstaklinga sem geri sér grein fyrir sínu samfélagslega hlutverki og sem vilji eiga þátt í að skapa betri heim.

Þau börn sem hafa tekið af skarið og mætt á loftslagsverkfallið og sýnt þar með að þau gera sér grein fyrir alvarleika málsins eiga hrós skilið.

Fimmta loftslagsverkfallið hér á landi verður haldið á Austurvelli kl. 12 föstudaginn 22. mars og hvetja skipuleggjendur alla, óháð aldri eða stöðu, til að mæta og taka þátt í að krefjast aukinna aðgerða í loftslagsmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert