Fast leiguverð í sjö ár

Af vef Almenna leigufélagsins en þar er að finna húsnæði …
Af vef Almenna leigufélagsins en þar er að finna húsnæði til leigu. Almenna leigufélagið

Alma er ný þjónusta á leigumarkaði þar sem leigjendum er gefinn kostur á leigu til allt að sjö ára á föstu leiguverði sem einungis er tengt vísitölu neysluverðs. Alma er í eigu Almenna leigufélagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Almenna leigufélagið hefur unnið að þessari nýju þjónustu um nokkurt skeið en í nýju samningunum felst leiguöryggi til allt að sjö ára. Samningarnir eru gerðir til árs í senn en að ári liðnu hefur leigjandinn einhliða rétt á að framlengja samninginn um annað ár. Með þessum hætti getur leigjandi framlengt allt að sex sinnum eða í allt að sjö ár. Þegar samningur er framlengdur kemur ekki til neinnar hækkunar á leiguverði umfram breytingar á vísitölu neysluverðs og er því leiguverð tryggt til allt að sjö ára.

Nýir leigusamningar Ölmu bjóðast öllum nýjum viðskiptavinum frá 19. mars, auk þess sem öðrum viðskiptavinum verður boðið að skipta yfir þegar þeirra samningar renna út. Áfram verður jafnframt boðið upp á styttri leigusamninga með styttri uppsagnarfresti, sem henta þeim sem vilja leigja til skemmri tíma og hafa mikinn sveigjanleika.

Eins og fram hefur komið funduðu Almenna leigufélagið og VR um íslenska leigumarkaðinn fyrir skömmu vegna fyrirhugaðra hækkana á leiguverði sem síðar var fallið frá. Forsvarsmenn félaganna voru sammála um að breytinga væri þörf á íslenskum leigumarkaði þar sem háir vextir þrýsti á leiguverð, hvort sem er í félagslega kerfinu eða á hinum almenna markaði. Þegar við bætist óstöðugt lóðaframboð og hár kostnaður við byggingaframkvæmdir dregur úr leiguframboði á viðráðanlegu verði fyrir hinn almenna launamann.

Einnig voru forsvarsmenn félaganna sammála um að mikilvægt væri að íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir langtímafjárfestar kæmu með öflugum hætti að fjármögnun leigufélaga til þess að skapa grundvöll fyrir lægri leigu, stöðugra leiguumhverfi og aukið húsnæðisöryggi,“ segir í fréttatilkynningu.

„Húsnæðismál eru eitt brýnasta úrlausnaefni samtímans og flestir eru sammála um mikilvægi þess að vinna að fjölbreyttum lausnum sem henta mismunandi hópum á húsnæðismarkaði. Það er von okkar að Alma sé fyrsta skrefið í átt að því að gera hinn almenna leigumarkað að raunhæfum langtímavalkosti og að innlendir fjárfestar komi nú að uppbyggingu hans með krafti. Umfang og framtíð þessarar nýju þjónustu Ölmu mun á endanum ráðast af áhuga langtímafjárfesta á því að fjármagna félagið á hagkvæmum kjörum sem endurspegla hversu traust fjárfestingin er,“ segir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, í fréttatilkynningu.

Almenna leigufélagið er sjálfstætt fasteignafélag sem heyrir undir sjóð sem er í eigu fjölbreytts hóps fagfjárfesta og stofnanafjárfesta. Sjóðurinn er í rekstri hjá fjármálafyrirtækinu Gamma. Félagið hefur aldrei greitt út arð til hluthafa á þeim tíma sem það hefur starfað.

Upplýsingar um íbúðir

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert