„Í höndum Icelandair og WOW“

Bjarni Benediktsson mætir á ríkisstjórnarfund við Tjarnargötu í morgun.
Bjarni Benediktsson mætir á ríkisstjórnarfund við Tjarnargötu í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Stjórnvöld hafa verið að fylgjast með endurfjármögnun WOW síðan í haust, þannig að við höfum verið í reglulegum samskiptum í samræmi við það, þá sérstaklega eftirlitsaðilarnir. Nú er málið bara komið í þennan farveg og það er í höndum Icelandair og WOW að leiða fram niðurstöðu í þessu, án beinnar aðkomu stjórnvalda,“ segir Bjarni Benediktsson í stuttu samtali við mbl.is áður en hann mætti á ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun.

Hann sagðist aðspurður ekki vera reiðubúinn að tjá sig um það hvenær stjórnvöld hefðu fengið vitneskju um það að Indigo Partners hefði fallið frá áformum sínum um að fjárfesta í WOW air, en fréttir vikunnar, um að Skúli Mogensen hefði falast eftir ríkisábyrgð á láni, bentu til þess að babb væri komið í bátinn í viðræðum Indigo og WOW, án þess þó að nokkrar frekari upplýsingar fengjust.

Frá því að þau tíðindi voru opinberuð í gærkvöldi, að Icelandair og WOW air hefðu hafið viðræður um yfirtöku Icelandair að nýju, hefur því verið velt upp hvort íslenska ríkið gæti sett pressu á Isavia um að gefa eftir einhvern hluta skuldar WOW air við Isavia vegna lendingargjalda. Steinn Logi Björnsson, forstjóri Bluebird og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair, velti því upp í gærkvöldi, í samtali við mbl.is.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála og ýmissa annarra málaflokka, sagðist aðspurð ekki geta tjáð sig um það hvort það kæmi til greina að liðka fyrir viðræðum Icelandair og WOW með þeim hætti.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði á tröppum Ráðherrabústaðarins að hann hefði verið að koma til landsins í gærkvöldi, er hann var inntur eftir viðbrögðum við þeirri stöðu sem nú er uppi.

„Ég veit kannski meira um þetta síðar í dag,“ sagði Sigurður Ingi áður en hann hélt inn á fund ríkisstjórnarinnar, sem hófst kl. 9:30.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ekki á fundi ríkisstjórnarinnar í dag, þar sem hún er erlendis í opinberum erindagjörðum, nánar tiltekið í Brussel á fundi leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins.

Þar eru einnig forsætisráðherrar EES-ríkjanna Noregs og Liechtenstein, en í dag er því fagnað að 25 ár séu liðin frá því að EES-samningurinn tók gildi.

Sigurður Ingi sagðist kannski geta svarað spurningum um viðræður Icelandair …
Sigurður Ingi sagðist kannski geta svarað spurningum um viðræður Icelandair og WOW síðar í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert