Tjónið þegar töluvert

Þátttakendur í verkfallinu tóku sér kröfustöðu meðal annars fyrir utan …
Þátttakendur í verkfallinu tóku sér kröfustöðu meðal annars fyrir utan Hús atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 2.300 manns tóku þátt í sólarhringsverkfalli Eflingar og VR sem lauk eina mínútu í miðnætti í gærkvöldi. Verkfallið beindist að hótelum og rútubílstjórum og tóku verkalýðsfélögin sér kröfustöður meðal annars fyrir utan Hús atvinnulífsins og ýmis hótel á höfuðborgarsvæðinu.

Sögðu forkólfar verkalýðsfélaganna að grunur léki á að verkfallsbrot hefðu verið víðs vegar í gangi. Á heimasíðu Eflingar kom fram að greiðslur úr verkfallssjóði félagsins væru háðar „hógværri kröfu“ um þátttöku í verkfallinu.

Ríkissáttasemjari boðaði í gær til fundar á mánudaginn í kjaradeilu Eflingar, VR, VLFA, LÍV, Framsýnar og VLFG við Samtök atvinnulífsins eftir að sáttafundur á fimmtudaginn stóð fram á kvöld.

Tugmilljónatjón fyrir hótelin

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að það hafi að mestu leyti gengið vel að halda starfseminni gangandi hjá þeim fyrirtækjum sem urðu fyrir barðinu á verkföllunum

„Það var þegar orðið töluvert tjón af þessu því að hótelin þurftu að loka fyrir bókanir þegar ljóst var í hvað stefndi,“ segir Bjarnheiður og bætir við að það hafi orðið tugmilljónatjón af verkfallinu fyrir hótelin. „Þá þurftu rútufyrirtækin að aflýsa dagsferðum og annað, þannig að tekjutap varð af því.“

Hún bætir við að samskipti við verkfallsverði hafi að mestu gengið ágætlega, þrátt fyrir að ágreiningur hafi verið milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna um það hverjir mættu vinna. „Ég held að það hafi ekki farið í nein leiðindi neins staðar,“ segir Bjarnheiður og bætir við að ágreiningurinn verði að fara í réttan farveg, það sé félagsdómur sem skeri úr um það.

Bjarnheiður segir miklar áhyggjur innan ferðaþjónustunnar um framhaldið. „Þó að það hafi gengið vel að halda starfseminni gangandi í einn sólarhring, þá verður það erfiðara í næstu viku,“ segir Bjarnheiður, en VR og Efling hafa boðað til tveggja daga verkfalls á fimmtudag og föstudag í næstu viku.

Bjarnheiður segir að róðurinn þyngist bara vegna verkfallanna og því voni allir að samningar náist fyrir þann tíma. Hún segir að því lengur sem deilurnar dragist á langinn, þeim mun meiri hætta verði á langvarandi skaða á orðspori Íslands sem ferðamannastaðar. „Þetta kemur óorði á áfangastaðinn og við höfum áhyggjur af því inn í framtíðina,“ segir Bjarnheiður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert