Sakfelldur fyrir meiri háttar skattabrot

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í síðustu viku í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Auk þess var maðurinn dæmdur til að greiða 49 milljónir króna í sekt.

Héraðssaksóknari ákærði manninn í september í fyrra fyrir „meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri Íslensku umboðssölunnar...“ með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna september, október, nóvember og desember rekstrarárið 2015, febrúar til og með desember rekstrarárið 2016 og janúar rekstrarárið 2017, samtals að fjárhæð 24.669.819 krónur.

Við aðalmeðferð málsins sagði maðurinn að rekstur félagsins hefði verið brösóttur eftir hrun og að það hefði ekki ráðið fjármálum sínum að öllu leyti. Hann sagðist ekki hafa tekið neina meðvitaða ákvörðun um að greiða ekki staðgreiðsluna til ríkissjóðs.

Brot mannsins er talað varða við almenn hegningarlög sem leggur refsingu við meiri háttar broti gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þar segir meðal annars að það sé refsivert ef launagreiðandi, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir.

Fram kemur í dómnum að samkvæmt framburði mannsins, sem fær stuðning í gögnum málsins, er sannað að framangreindum fjárhæðum var haldið eftir af launagreiðslum til starfsmanna en þeim ekki skilað til innheimtumanns. Á þessu bar maðurinn ábyrgð sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Maðurinn er dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða 49 milljóna króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms ella sæta fangelsi í 360 daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert