WOW reynir að semja

Ein af farþegaþotum WOW air, TF-GPA, sést hér í flugskýli …
Ein af farþegaþotum WOW air, TF-GPA, sést hér í flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli. Vélin er sögð vera trygging fyrir skuldum hjá Isavia. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, fundaði um endurskipulagningu félagsins í gærkvöldi. Fulltrúar WOW air vildu ekki tjá sig um viðræðurnar og efni þeirra.

Félagið lofaði Morgunblaðinu viðtali við Skúla um miðjan dag í gær. Skömmu áður en blaðið fór í prentun var hins vegar tilkynnt að vegna annríkis yrði viðtalið að bíða.

Upp úr hádegi í gær sendi WOW air frá sér tilkynningu um að félagið hefði náð samkomulagi við meirihluta skuldabréfaeigenda um fjárhagslega endurskipulagningu þess.

Haft var eftir Skúla á vef Vísis að næsta skref væri að semja við kröfuhafa. Þeim viðræðum hefðu ekki verið gefin nein tímamörk.

Friðrik Larsen vörumerkjasérfræðingur segir vörumerki WOW air afar mikils virði. Félagið hafi kostað miklu til markaðssetningar á erlendum mörkuðum síðustu ár.

Hann telur aðspurður að vörumerkið hafi skaðast af umræðu um framtíð félagsins síðustu daga en vélar hafa m.a. verið kyrrsettar.

Með því að halda uppi tíðni flugferða á næstunni geti félagið hins vegar unnið vissan varnarsigur.

Skúli ekki lengur eigandinn

Með samkomulaginu við skuldabréfaeigendur er WOW air ekki lengur í hreinni eign Skúla.

Hver eignarhluturinn verður til framtíðar mun ráðast af endurskipulagningu félagsins.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur að flugfargjöld þurfi líklega að hækka.

„Vandræði flugfélaganna endurspegla það að hluta að verð á flugfargjöldum hefur verið mjög lágt og samkeppnin mikil á flugmarkaði við félög með hagstæðari kostnaðaruppbyggingu en þau íslensku.

Vandræði íslensku flugfélagana í þessu umhverfi eru sjálfstætt áhyggjuefni fyrir okkur sem ferðamannastað í ljósi þess hvað þessi félög eru umfangsmikil í flutningi farþega til og frá landinu. Flugfargjöld þurfa líklega að hækka en það myndi eflaust hafa neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn hingað,“ segir Ingólfur.

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, er sama sinnis og bendir á sögulegt samhengi flugfargjalda og fjölda skiptifarþega.

Verð flugmiða hafi í einhverjum tilvikum verið undir kostnaðarverði. Flugfélögin séu í erfiðri stöðu og geti ekki lengur selt miðana á því verði. Með því verði Ísland dýrari áfangastaður sem aftur geti hægt á vexti ferðaþjónustu á næstu árum.

Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Capacent, segir óvissu í efnahagsmálum hafa dregið úr væntingum. Margt bendi til að það hafi haft marktæk efnahagsleg áhrif.

„Við getum hikstalaust sagt að við finnum það víða í því sem við erum að fást við að sú óvissa sem verið hefur uppi, og þá einkum varðandi flugfélögin, hefur haft tilfinnanleg áhrif.

Langvarandi óvissa er aldrei góð í rekstri. Þá til dæmis varðandi skipulag og hvernig fólk ætlar sér næstu skref inn í framtíðina,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert