WOW hætt starfsemi

WOW air hefur hætt starfsemi. Öll flug félagsins falla því niður að því er segir á vef WOW air. Farþegum er bent á að kanna möguleika á flugi hjá öðrum flugfélögum en farþegum er bent á Samgöngustofu. Öllu flugi WOW air var aflýst í nótt en líkt og fram hefur komið nam tap af rekstri WOW air á síðasta ári 22 milljörðum króna.

Á mánudag var ljóst að WOW air gæti ekki staðið í skilum með 150 milljóna króna vaxtagreiðslu af 50 milljóna evra skuldabréfaútgáfu sem félagið réðst í á haustdögum í fyrra. Eigendur skuldabréfanna komust í kjölfarið að sam­komu­lagi um fjár­hags­lega end­ur­skipu­lagn­ingu fyr­ir­tæk­is­ins. Sam­komu­lagið fólst í því að breyta nú­ver­andi skuld­um kröfu­haf­anna í hluta­fé í von um að fjár­magna fé­lagið þar til það nær stöðug­leika til lengri tíma litið. Um er að ræða 49% hlutafjár í félaginu. 

Reynt var að bjóða hin 51% til sölu og var rætt um 40 millj­ón­ir dala, eða um 5 millj­arða króna, fyr­ir hlut­inn. Meðal annars kom fram að rætt væri við Indigo Partners um mögulega aðkomu í formi hlutafjár en nú er orðið ljóst að ekki hefur orðið af því. 

WOW air var stofnað í nóvember 2011 og fór í jómfrúarflug sitt til Parísar 31. maí 2012. Í október sama ár tók WOW air yfir rekstur Iceland Express og ári síðar fékk WOW air flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu. 

Á vef WOW air segir:

Athugið að sum flugfélög kunna við þessar aðstæður að bjóða farþegum aðstoð í formi björgunarfargjalda. Upplýsingar um þau félög verða birtar um leið og þær liggja fyrir.

Hver eru réttindi mín? Farþegum sem keyptu flugmiða með kreditkorti er bent á að hafa samband við útgefanda kortsins til að kanna möguleika á að fá flugmiðann endurgreiddan. Farþegar sem keyptu ferðina af evrópskum ferðaskipuleggjanda sem seldi flugmiðann sem hluta af svokallaðri alferð (þ.e. samsettri ferð þar sem flug er selt ásamt gistingu eða öðrum þjónustuþáttum) eiga rétt á heimflutningi á grundvelli samevrópskra reglna um alferðir. Farþegum er bent á að hafa samband við þann ferðaskipuleggjanda sem þeir keyptu ferð sína af.

Farþegar kunna jafnframt að eiga kröfu á hendur WOW AIR, m.a. á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega. Þegar um gjaldþrot er að ræða þarf að lýsa slíkum kröfum í þrotabú flugrekandans.

Hvar fæ ég nýjustu upplýsingar?

Tilkynningin verður birt og uppfærð með nýjustu upplýsingum hverju sinni á eftirtöldum stöðum: Vef Samgöngustofu: www.samgongustofa.is / www.icetra.is -

Vef Keflavíkurflugvallar: https://www.isavia.is/ 

Vef WOW AIR: www.wowair.com 


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert