„Stórmál“ að fljúga með John og Rose heim

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði fyrirspurnum vegna gjaldþrots WOW air á …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði fyrirspurnum vegna gjaldþrots WOW air á þingi síðdegis í dag. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði nú síðdegis fyrirspurnum þriggja þingmanna stjórnarandstöðunnar vegna falls WOW air og viðbragða stjórnvalda í þeim efnum, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi.

Forsætisráðherra sagðist ekki gefa mikið fyrir þann tón í fyrirspurnunum, sem væri á þá vegu að stjórnvöld hefðu ekki verið búin undir gjaldþrot flugfélagsins og sagði stjórnvöld þegar hafa gripið til margvíslegra aðgerða til þess að mæta kólnun í hagkerfinu, sem hefði verið spáð um nokkurt skeið.

„Hagkerfið er mjög vel í stakk búið til að takast á við áskoranir á borð við þessa og það virkar ekki þannig, svo ég segi það við háttvirtan þingmann og allan þingheim, að hið opinbera dragi upp ný flugfélög upp úr skúffunni þegar eitt flugfélag fer á hausinn,“ sagði Katrín meðal annars í svari sínu við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata.

Þórhildur Sunna sagði, og raunar tóku þær Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar undir það líka, að höggið vegna falls WOW air yrði verst á Suðurnesjum, þar sem viðbúið væri að mörg störf töpuðust á Keflavíkurflugvelli.

Hvað varðaði Suðurnesin sérstaklega og skammtímaviðbrögð sagðist Katrín hafa átt mjög góðan fund með sveitarstjórnum á Suðurnesjum í morgun, þar sem var farið yfir skammtímaviðbrögðin. Hún sagði alla ráðherra vera á tánum vegna stöðunnar á Suðurnesjum og að opinberar framkvæmdir væru fyrirhugaðar á Suðurnesjum, sem myndu „sannarlega þjóna þeim tilgangi að tryggja atvinnustig“.

Stórmál að fljúga með John og Rose heim

Þorgerður Katrín spurði hvaða ráðstafanir stjórnvöld hefðu gert til þess að uppgjör úr ábyrgðarsjóði launa tæki ekki hálft ár eins og það gerði jafnan og hvaða skilaboð fólk sem hefði starfað hjá WOW með námi og ætti nú hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né láni frá LÍN myndi nú fá, eða þá þeir sem væru í eða á leið í fæðingarorlof.

„Hvað verður gert af hálfu stjórnvalda sem hönd á festir, annað en að fljúga John og Rose til síns heima?“ spurði Þorgerður Katrín og vísaði til þeirrar viðbragðsáætlunar sem samgönguráðuneytið hafði umsjón með og snerist um að koma þeim flugfarþegum sem voru strand hér á landi síðasta fimmtudag heim til sín.

Katrín sagði að það væri „stórmál að fljúga John og Rose til síns heima“, þar sem að lönd sem hefðu lent í því að flugfélög þeirra færu á hausinn hefðu lent í orðsporsvanda ef ekki tækist vel að koma fólki á milli staða.

Tómar höfuðstöðvar WOW air á fimmtudaginn.
Tómar höfuðstöðvar WOW air á fimmtudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lönd hafa farið mjög illa á því að sitja uppi með þúsundir strandaglópa, þar sem viðbragðsáætlun hefur ekki virkað. Þannig að þetta segi ég nú til upplýsingar háttvirtum þingmanni, sem virðist finnast það léttvægt að koma fólki á milli staða. Það er ekki svo,“ sagði forsætisráðherra.

Katrín lagði líka áherslu á það í svörum sínum að ráðuneyti félagsmála, heilbrigðismála og menntamála væru „öll tilbúin með ákveðnar aðgerðir vegna þessa máls,“ meðal annars væri menntamálaráðherra tilbúinn með aðgerðir til þess að koma til móts við þá sem voru að vinna hjá WOW með námi og lenda nú á milli í kerfinu, eiga hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né LÍN-láni.

Aukið námsframboð á Suðurnesjum

„Nú reynir á stjórnvöld og hvernig aðkoma þeirra verður,“ sagði Oddný Harðardóttir í fyrirspurn sinni. Hún spurði sérstaklega um það hvernig velferð fólks og þá sérstaklega barna, yrði tryggð, nú þegar ljóst væri að fjöldi fólks væri að fara að missa atvinnu sína, með til dæmis menntunartækifærum.

Katrín sagðist taka undir með það að sérstaklega þyrfti að huga að velferð barna, í þeirri stöðu sem nú er uppi. Hún sagðist jafnframt hafa farið yfir það með sveitarstjórnarfólki á Suðurnesjum í morgun, hvað væri í gangi og hvað stæði til. Meðal þess sem kom fram í máli forsætisráðherra var að búið væri að tryggja fjármagn í fleiri námsbrautir við Keili og einnig fjármagn í viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert