„Snilldarhugmynd“ og „risamál“

Frá rafíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fór fram í Laugardalshöll.
Frá rafíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fór fram í Laugardalshöll. Ljósmynd/Kjartan Einarsson

Borgarstjórn hefur samþykkt að vísa til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs tillögu Sjálfstæðisflokksins um að styðja við íþróttafélög í Reykjavík um að koma á fót rafíþróttadeildum innan félaganna.

Málsmeðferðartillaga þess efnis var samþykkt samhljóða á borgarstjórnarfundi í dag.

„Nú hafa rafíþróttir verið að ryðja sér til rúms víða á Norðurlöndunum. Rafíþróttir ganga út á að börn og unglingar mæli sér mót og æfi sig saman sem lið og einstaklingar í alls konar tölvuleikjum. Rafíþróttir eru þannig eins og hefðbundnar íþróttir í þeim skilningi að iðkendur hittast á æfingum og keppa svo sín á milli á mótum, sams konar mótum og íþróttamótum. Þetta eitt og sér fær ungmenni til þess að fara út úr húsi, hitta aðra einstaklinga og mynda nauðsynleg félagsleg tengsl,“ segir í tillögunni.

„Þá hefur þátttaka í skipulögðu hópastarfi jákvæðar afleiðingar almennt og læra ungmenni þar m.a. markmiðasetningu, sjálfsaga, ábyrgð og tilfinningastjórnun svo fátt eitt sé nefnt. Þetta rímar við það sem sést hefur í skipulögðu rafíþróttastarfi á Norðurlöndunum, þar sem iðkendur merkja aukna færni í félagslegum samskiptum, aukið líkamlegt hreysti og státa sig af betri árangri í leik og starfi.“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nýr heimur opnaður

Þeir borgarfulltrúar sem stigu á stokk voru sammála um að tillagan væri góð. Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, talaði um að þeir sem stunda rafíþróttir gætu átt möguleika á að verða keppnismenn og jafnvel atvinnumenn, miðað við vinsældir íþróttarinnar um allan heim. Eftir það gætu þeir sest í helgan stein og hjálpað öðrum við að verða betri í rafíþróttum.

Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði mikilvægt að nýta íþróttafélögin til að bjóða upp á góðan ramma í tengslum við rafíþróttir og vinna um leið gegn félagslegri einangrun.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði tillöguna afar brýna. „Þetta er algjör snilldarhugmynd,“ sagði hún og bætti við að búið sé að opna fyrir henni nýjan heim hvað rafíþróttir varðar.

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, sagði tillöguna framsækna og tímanna tákn. Gríðarlegur fjöldi fólks væri virkur í rafíþróttum. Benti hann á að 250 milljónir manna hafi verið skráðir notendur að tölvuleiknum Fortnite og að 11 milljónir hafi spilað leikinn á sama tíma. „Þið sjáið hvers konar risamál þetta er.“

Hann las jafnframt upp yfirlýsingu frá formönnum Víkings, KR og Fjölnis sem lýstu yfir stuðningi við tillöguna.

„Þetta er ágætistillaga, þó að mér finnist þetta ekki endilega stórkostlegasta tillaga í heimi en ég styð hana,“ sagði Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

„Heilmikil sóknarfæri“

Í sameiginlegri bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna segir eftirfarandi:

„Vinsældir rafíþrótta hafa vaxið mikið um allan heim. Hér eru á ferðinni heilmikil sóknarfæri til að draga úr félagslegri einangrun sumra barna og ungmenna, finna ástríðu og áhugamálum þeirra farveg undir leiðsögn og tengja þau betur í annað íþrótta- og tómstundarstarf í borginni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna í borgarstjórn eru sammála um að eðlilegt sé að börn geti nýtt frístundakort í rafíþróttum, rétt eins og í öðru skipulögðu íþróttastarfi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna eru sammála um að styðja við viðleitni íþróttafélaga, eða annarra, sem hyggjast bjóða upp á rafíþróttir í tengslum við starf sitt. Tillögu Sjálfstæðisflokksins er vísað til MÍT til frekari úrvinnslu.“

Stuðningsyfirlýsingin:

„Í dag verður lögð fram tillaga í borgarstjórn um að Reykjavíkurborg styðji íþróttafélögin í Reykjavík við að koma á fót rafíþróttadeildum innan félaganna. Markmiðið er að koma í veg fyrir félagslega einangrun og auka félagsfærni barna og ungmenna. 

Þátttaka barna og ungmenna í íþróttastarfi hefur mikið forvarnargildi og hefur mjög jákvæð áhrif á félagsfærni barna, ekki síst til framtíðar litið.  Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á þessi jákvæðu tengsl. Það er nauðsynlegt að börn og ungmenni fái þjálfun í félagsfærni enda getur slík færni hjálpað þeim á öllum stigum lífsins, bæði í leik og starfi.

Við undirritaðir viljum styðja þessa tillögu og teljum að þetta geti bæði aukið fjölbreytni íþróttastarfs, en einnig leitt til að börn og ungmenni, sem ekki taka þátt í starfi íþróttafélaga sjái tækifæri til að sinna sínum hugðarefnum innan þeirra raða. 

Björn Einarsson, formaður Víkings                          

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR

Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert