Sérstök lán og uppbygging Keldnalands

Katrín Jakobsdóttir í Ráðherrabústaðnum.
Katrín Jakobsdóttir í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/​Hari

Stjórnvöld ætla að auka framlög til almenna íbúðakerfisins um tvo milljarða króna á ári næstu þrjú árin sem hægt verður að ráðstafa til stofnframlaga til byggingar allt að 1.800 íbúða á næstu árum. Þá á að skoða möguleika á að Íbúðalánasjóður veiti sérstök lán til ungs og tekjulágs fólks sem á erfitt með fyrstu fasteignakaup. Ríkið ætlar einnig að skipuleggja Keldnalandið til uppbyggingar.

Einnig verður heimilt að ráðstafa þeim hluta lífeyrisiðgjalda sem nefndur er tilgreind séreign til húsnæðiskaupa með skattfrjálsri úttekt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stuðning við lífskjarasamninginn.

Stuðningur við húsnæðismál er í þrettán liðum í yfirlýsingunni, en sjá má þá hér neðst í fréttinni.

Samkvæmt tillögunum eiga fyrrnefnd lán að vera svokölluð hlutdeildarlán, en þá eru skilmálar þess þannig að höfuðstóllinn getur svarað til tiltekins hlutfalls af markaðsvirði eignarinnar. Bera slík lán lægri vexti sem og afborganir fyrstu árin. Þá gera þau tekjulágum kleift að komast yfir útborgunarþröskuldinn þar sem krafa um eigið fé er lægra.

Þá er lagt til að stuðningur við fyrstu kaup nái einnig til þeirra sem ekki hafi átt fasteign í fimm ár, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í kynningu sinni að með þessu væri horft til þess að fólk sem hefði misst eign sína í hruninu gæti t.d. notað lífeyrissparnað til að safna fyrir útborgun, þó ekki væri um fyrstu eign að ræða.

Þá á að framlengja í tvö ár heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis, eða til 30. júní 2021.

Einnig voru kynntar hugmyndir um að endurskoða húsaleigulög þannig að þau bæti réttarstöðu leigjenda, meðal annars varðandi hækkun leigufjárhæðar.

Einnig á að breyta lögum þannig að sveitarfélög geti gert kröfu um allt að 25% af byggingarmagni skuli vera fyrir almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir. Þá á að hefja skipulagningu Keldnalands þar sem stefnt er að félagslegri blöndun.

Aðgerðirnar má sjá í heild sinni hér að neðan, en þær eru í þrettán liðum:

  • Framlög í almenna íbúðakerfinu verði aukin um tvo milljarða króna á hverju ári eða samtals sex ma.kr. á árunum 2020–2022. Með þessu er áætlað að unnt verði að ráðstafa stofnframlögum til byggingar allt að 1.800 íbúða á árunum 2020–2022.
  • Unnið verði með aðilum vinnumarkaðarins að því að finna skynsamlegar leiðir og útfærslur á þeim til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu fasteignakaup. Ein mögulegra leiða er að veitt verði sérstök lán (t.a.m. Íbúðalánasjóður) með þeim skilmálum að höfuðstóllinn geti svarað til tiltekins hlutfalls af markaðsvirði eignarinnar. Slík „hlutdeildarlán“ bæru lægri vexti og afborganir fyrstu árin og gerðu tekjulágum kleift að komast yfir útborgunarþröskuldinn þar sem krafa um eigið fé væri lægri. Hlutdeildareigandi fengi endurgreitt þegar eigandi seldi viðkomandi íbúð eða greiddi lánið upp á matsvirði.
  • Stuðningur stjórnvalda við fyrstu kaup nái einnig til þeirra sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
  • Heimilt verði að ráðstafa þeim hluta lífeyrisiðgjalds sem nefndur er tilgreind séreign til húsnæðiskaupa með skattfrjálsri úttekt og tíma- og fjárhæðartakmörkunum.
  • Framlengd verði í tvö ár heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, frá 1. júlí 2019 til 30. júní 2021.
  • Ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings.
  • Sveigjanleiki í útleigu á hluta húsnæðis verði aukinn.
  • Stuðningur við hagsmunasamtök leigjenda verði aukinn.
  • Myndaður verði samstarfsvettvangur stjórnvalda og annarra hagsmunaaðila til að auka yfirsýn yfir skipulags- og byggingarmál og rafræna stjórnsýslu auk þess sem regluverk verði einfaldað.
  • Sveitarfélögum verði tryggðar heimildir í skipulagslögum til að gera kröfur um að allt að 25% af byggingarmagni samkvæmt nýju deiliskipulagi skuli vera fyrir almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir, hvort sem eigandi lands er sveitarfélag, ríki eða einkaaðili.
  • Ríkið og Reykjavíkurborg komist að samkomulagi um að hefja skipulagningu Keldnalands, m.a. með markmiðum um félagslega blöndun, og semji í framhaldinu um eignarhald og framkvæmdir.
  • Samstarf opinberra stofnana sem hafa það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um húsnæðismál verði aukið, myndaður verði öflugur samstarfsvettvangur opinberra aðila og þeir vinni að sameiginlegum skilgreiningum sem hægt verði að styðjast við í greiningum á upplýsingum um húsnæðismál.
  • Ríkisstjórnin mun vinna að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög. Íbúðalánasjóði verður falið að halda utan um eftirfylgni tillagna átakshópsins í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert