„Stolt af ríkisstjórninni“

„Miðað við allt og allt og þau áfall sem við …
„Miðað við allt og allt og þau áfall sem við erum að ganga í gegn um núna með falli WOW, þá getum við ekki verið annað en sátt.“ mbl.is/​Hari

„Það er sýnilegt að með góðum vilja og samstöðu er hægt að gera góða hluti. Þessir samningar eru tímamótasamningar og ég er mjög glöð með að við skulum vera búin að ná þessum áfanga,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um lífskjarasamningana sem undirritaðir voru í gær.

„Verkalýðsforystan á heiður skilið, það er búið að leggja nótt við dag og atrennan löng og virkilega snúin. Hún á hrós skilið og ég er líka stolt af ríkisstjórninni, hvað hún kom sterk inn á lokametrunum og gerði þetta mögulegt.“

Markmið Flokks fólksins er að útrýma fátækt á Íslandi og þrátt fyrir að Inga sé ánægð með samningana segir hún kjarabótina auðvitað eiga að vera meiri.

„Ég hef alltaf talað fyrir því að það eigi að vera 300 þúsund króna lágmarksútborgun hér, skatta- og skerðingalaust, en við sjáum það að hérna á að hækka launin umtalsvert og þá mest hjá þessum lægstlaunuðu, eða um rúm 30%. Þegar lítur að öryrkjum og þeim sem hafa þurft að reiða sig á afkomu almannatrygginga eru þeir ekki að fá á neina launahækkun, enda ekki inni í þessu módeli, en hins vegar mun það nýtast þeim sem öðrum að skattar verði lækkaðir.“

Frá kynningu stjórnvalda á lífskjarasamningnum í gærkvöldi.
Frá kynningu stjórnvalda á lífskjarasamningnum í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Þá segir hún skrefið sem tekið er í afnámi verðtryggingarinnar stórkostlegt og vonar að það verði engin leið að stíga það til baka. „Strax ef á að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu þá erum við að sjá til lengri tíma gjörbreytingu á markaðnum.“

Getum ekki verið annað en sátt

„Þetta eru rosalega flóknir samningar og litið í allar áttir. Það er allt gert til að tryggja líka að það gerist ekki, eins og alltaf hefur verið tilhneiging til, að þegar það hafa verið kjarabætur í samningum líða ekki nema tveir, þrír dagar þangað til búið er að hækka allt og ágóðinn af baráttunni fyrir bí. Þessir samningar eru allt öðruvísi byggðir upp. Það eru krónutölurnar frekar en prósenturnar upp allan stigann eins og við höfum verið að berjast fyrir. Þetta er bara tímamótasamningur.“

„Miðað við allt og allt og þau áföll sem við erum að ganga í gegn um núna með falli WOW, þá getum við ekki verið annað en sátt, en ég gæti verið sáttari. Ég segi bara til hamingju verkalýðshreyfingin, þetta eru hetjur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert