Skattfé ekki spjálfsprottin auðlind

Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Ég get nú ekki tekið undir orð borgarstjóra að bragginn sé eitthvert einsdæmi. Þarna kemur til dæmis fram að það hafi einnig verið verulega framúrkeyrsla varðandi Hlemm mathöll,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um verklegar framkvæmdir og innkaupamál borgarinnar sem kynnt var í borgarráði í gær.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann teldi skýrsluna sýna að bragginn í Nauthólsvík hafi verið frávik. Samkvæmt skýrslunni var framúrkeyrsla vegna þriggja annarra framkvæmda sem skoðaðar voru, Sundhallar Reykjavíkur, viðbyggingar við Vesturbæjarskóla og framkvæmda við Grensásveg, innan óvissuviðmiða. Hildur segir að í orðum borgarstjóra birtist hugsanlega hugmyndafræðilegur ágreiningur um það hvert hlutverk sveitarfélaga eigi að vera.

„Þarna er um að ræða verkefni þar sem sveitarfélag er að nota skattfé sem á að fara í grunnþjónustu til þess að byggja veitingahúsnæði sem það leigir síðan áfram langt undir markaðsvirði og fer síðan í ofanálag langt út fyrir fjárheimildir. Mér þykir alltaf mjög vont þegar borgarstjóri kemur fram í málum af þessum toga og ræðir um þau af léttúð,“ segir Hildur. Þess utan séu mun fleiri verkefni sem þyrfti einnig að skoða.

Fjármunir úr vösum vinnandi fólks

„Það eru mun fleiri verkefni sem við höfum heyrt af og myndum óska þess að innri endurskoðun myndi taka líka til skoðunar. Það er voðalega vont þegar þetta er orðið eins konar þema og maður upplifir það að ekki sé borin virðing fyrir fé skattgreiðenda og að meirihlutinn líti á skattfé sé einhverja sjálfsprottna auðlind en ekki fjármuni sem komnir eru úr vösum vinnandi fólks. Þetta er hluti af launum fólks.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert

Fólk greiði útsvar og ætlist til þess að það sé nýtt til grunnþjónustu við það en ekki að því sé varið til dæmis í að byggja veitingahúsnæði sem síðan sé leigt út til einkaaðila langt undir markaðsvirði. Hildur leggur áherslu á það að hún sé ötull stuðningsmaður einkaframtaksins en þetta sé einfaldlega ekki hlutverk Reykjavíkurborgar. Það sé ekki rétt að borgarbúar séu látnir bera ábyrgð á slíkum verkefnum.

Versta sé að ekki hafi verið farið eftir ábendingum um úrbætur nema að takmörkuðu leyti. Til að mynda sem komið hefðu fram í úttekt innri endurskoðunar á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar árið 2015. Fram hefði komið í skýrslunni um braggamálið að ef brugðist hefði verið við þeim ábendingum að fullu hefði málið aldrei raungerst og sama eigi við um Hlemm mathöll og önnur verkefni sem farið hefðu út fyrir heimildir.

Miklu nær væri að setja þá fjármuni sem þarna hefði verið farið með á óábyrgan hátt í grunnþjónustuna. Ekki síst skólana þar sem skorti víða á að viðhaldi hafi verið sinnt. „Með öðrum orðum algerir grunnþættir sem eiga að vera í lagi. En á meðan er fókusinn á eitthvað allt annað sem á ekkert að vera á könnu sveitarfélagsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert