Bílaumferðin ekki uppruni svifryksins?

Einar segir gott að minnka bílaumferð og sérstaklega til að …
Einar segir gott að minnka bílaumferð og sérstaklega til að bæta loftgæði, en uppruni svifryks geti hins vegar verið annar en frá umferð eða vegunum í þéttbýli. mbl.is/RAX

Er uppruni svifryksins í Reykjavík mögulega einhver annar en bílaumferðin? Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson varpar þessari spurningu fram á Facebook-síðu sinni í kvöld.

„Það er mjög gott að minnka bílaumferð og sérstaklega til að bæta loftgæði. Því verður að skoða viðleitni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar með jákvæðum augum,“ segir Einar í færslu sinni.

Uppruni svifryks geti hins vegar verið annar en frá umferð eða vegunum í þéttbýli. „Það vakti athygli mína í morgun þegar ég fór í Bláfjöll að greinileg móska var á austurhimninum. Strekkingsvindur var frá í gær með suðurströndinni, þurrt og það er einmitt á þessum árstíma sem fínefnin rjúka í vindinum og berast til vesturs.“

Segist Einar líka hafa séð að hæstu gildi PM10 svifryks (þess grófara) hafi mælst á mæli við Njörvasund í Reykjavík klukkan eitt í nótt og þá hafi umferð eðlilega verið lítil.

„Reiknaði afturábak feril lofts í lægri lögum með HYSPLIT-tólinu frá NOAA. Kom þá ekki í ljós að uppruni loftsins um 12 klst. fyrr var austan Mýrdalssands,“ segir hann í færslunni. Kveðst Einar því að óathuguðu máli telja að uppruni svifryksins að þessu sinni „sé frekar mór af Eldhrauni á Síðu, þurr leirinn frá síðasta Skaftárhlaupi, frekar en fínefni af Skeiðarársandi. Þarna er enginn snjór og í gær var vindur A 8-9 m/s á Kirkjubæjarklaustri. Blæs þar reyndar enn og því eru líkur á morgun að svifryk berist og mælist á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert