„Ég vona að ríkisstjórnin sjái að sér“

Húsfyllir var á fundi í Safnahúsinu um orkupakkann í gær. …
Húsfyllir var á fundi í Safnahúsinu um orkupakkann í gær. Ögmundur Jónasson segir mikla andstöðu vera við málið þvert á flokka. Ljósmynd/Aðsend

„Það er alveg ljóst að eftir þessa yfirferð er ekki um neitt annað að gera fyrir ríkisstjórnina en að draga þingmál sitt til baka, því það er fullkomlega vanreifað,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra VG, í samtali við mbl.is um fund um tillögu ríkisstjórnarinnar um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem var haldinn í Safnahúsinu í gær.

Húsfyllir var á fundinum og mættu fleiri en komust að, að sögn Ögmundar. „Hann var mjög upplýsandi og jafnframt mjög kröftugur. Þarna voru frummælendur sem þekktu vel til mála og eru búnir að grannskoða þessi mál.“

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var einnig annað sem var rætt á þessum fundi, það var andstaðan hjá þjóðinni. Það hefur ítrekað komið fram í könnunum sem gerðar hafa verið að þetta er þvert á þjóðarviljann, þvert á vilja almennings og það á við um alla stjórnmálaflokka. Ef stjórnmálamenn ætla ekki að skera á öll tengsl sín við þessa þjóð endurskoði þeir sinn hug,“ segir hann.

Mikil orka

Ögmundur, sem skipulagði fundinn, segir hann hafa verið jákvæðan og mikil orka hafi verið á honum. „Hann var fjölsóttur og margir þurftu frá að hverfa,“ segir hann og bætir við að hann hafi gengið út á það að orkan yrði í höndum Íslendinga.

Þá segir Ögmundur það vekja athygli að fyrirhugað er að innleiða orkupakkann með fyrirvörum sem allt bendir til að munu ekki standast. „Það er verið að milda þennan pakka, en þá spyr ég: Hvers vegna er verið að leiða hann yfir okkur ef allir eru sammála um að hann er til ills, bara spurning um hversu mikið til ills?“

„Ég vona það að ríkisstjórnin sjái að sér dragi málið hið snarasta til baka og forði okkur frá þessu stórslysi,“ bætir hann við.

Húsfyllir í Safnahúsinu
Húsfyllir í Safnahúsinu Ljósmynd/Aðsend

Þvert á flokka

Athygli hefur vakið að á myndum af fundinum má sjá að mættir voru meðal annnars Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra sem yfirgaf VG, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson þingmenn Miðflokksins áður Flokks fólksins og Guðni Águstsson fyrrverandi formann Framsóknarflokksins.

Einnig má sjá Magnús Þór Hafsteinsson áður í Frjálslyndaflokknum en nú í Flokki fólksins við hlið Ingu Sæland formanns Flokks fólksins. Una María Óskarsdóttir sem tekur sæti á Alþingi fyrir Miðflokkinn á mánudag eftir brotthvarf Gunnars Braga Sveinssonar var mætt.

Þá var Ragnar Stefánsson sem starfaði lengi með sósíalistum á fundinum og Frosti Sigurjónsson fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins var einn frummælenda.

Húsfyllir í Safnahúsinu
Húsfyllir í Safnahúsinu Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert