„Satt best að segja er það snargalið“

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, sagði margt gott í kjarasamningunum, …
Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, sagði margt gott í kjarasamningunum, en þar væri einnig ýmislegt skrítið að finna. mbl.is/Hari

Það er misskilningur að lækkun vaxta komi heimilunum til góða og galið að takmarka lánstíma verðtryggðra lána, sagði Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun.

„Flest lán til heimilanna eru lán frá öðrum heimilum og þar fyrir utan eru heimilin að lána fyrirtækjum og hinu opinbera. Þannig að það er stórfurðulegt að horfa á vaxtalækkun sem tekjubót fyrir heimilin,“ sagði hann.

Tilefni orða Gylfa var að hann var inntur álits á nýgerðum kjarasamningum. Telur hann misskilning fólginn í því að telja að vaxtalækkun færi heimilunum mikinn ávinning þar sem heimilin eru einnig eigendur vaxtaberandi eigna. „Almennt er eiginlega allt sem að þarna er sagt um vexti og lánamarkað mjög skrítið og erfitt að sjá að það sé til bóta.“

Misskilningur

Hann segir byggt á misskilningi að hægt sé að lækka vexti með samningum og bendir á að vextir séu ákvarðaðir með hliðsjón af verðbólgu. Þó tók hann fram að um er að ræða hóflega samninga sem ættu ekki að leiða til verðbólgu sem gerir það að verkum að vextir þyrftu ekki að hækka og gætu jafnvel lækkað.

„Mér finnst nú allt eins líklegt að stýrivextir gætu eitthvað lækkað í ljósi þess að það stefnir í vissa ró á vinnumarkaði.“

Þessi mikla áhersla á lægstu laun í kjarasamningunum er stór sigur fyrir Eflingu, að sögn Gylfa. „Ég held þetta nýtist þeim best. Skattabreytingarnar og hækkun barnabóta nýtist líka þeim lægst launuðu.“

Þjóni ekki hagsmunum neins

Spurður um verðtrygginguna vísaði Gylfi rökum um að verðtrygging valdi verðbólgu á bug, en sagði verðtrygginguna draga úr áhrifum vaxtaákvarðana Seðlabankans sérstaklega þar sem meirihluti lána til heimilanna sé verðtryggður.

Er umræður sneru að tillögum starfshóps félagsmálaráðherra að úrræðum fyrir tekjulága og ungt fólk til þess að lækka þröskuld inn á húsnæðismarkað, sagði Gylfi þær geta verið tekjulægsta hópnum til bóta. „Þær tillögur miða sérstaklega að þeim sem standa verst. Þannig að kannski mun staða þess hóps lagast.“

Hins vegar geta þær einnig skilið eftir talsvert stóran hóp fólks sem ekki getur nýtt úrræðin en nýta vertryggð jafngreiðslulán, að mati hans.

„En næsti hópur fyrir ofan sem uppfyllir ekki skilyrðin sem verða sett fyrir þessum startlánum og hvað þetta á nú allt að heita, sá hópur getur lent í verulegum vandræðum ef löngu verðtryggðu lánin verða bönnuð. Satt best að segja er það snargalið og ég get ekki séð að það þjóni hagsmunum neins.“

Starfshópur félagsmálaráðherra hefur lagt til að lánstími verðtryggðra lána verði takmarkaður við 25 ár í stað 40.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert