Félag stofnað um Finnafjarðarhöfn

Frá undirritun samninganna við höfnina á Þórshöfn í dag.
Frá undirritun samninganna við höfnina á Þórshöfn í dag. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Fulltrúar Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, þýska hafnarfélagsins Bremenports og verkfræðistofunnar Eflu hf. undirrituðu í dag samstarfssamninga um þróun og uppbyggingu hafnarstarfsemi í Finnafirði. Undirritunin samninganna fór fram á Þórshöfn í Langanesbyggð.

Við undirritunina var stofnað þróunarfélagið FFPD, sem mun vinna að því að afla sérleyfishafa til að hefja starfsemi innan svæðisins. Um er að ræða um 1.300 hektara svæði í Finnafirði, sem hýst getur margvíslega starfsemi.

Bremenports mun eiga 66% hlut í félaginu, en aðrir eigendur verða Efla hf. með 26% og sveitarfélögin Vopnafjörður og Langanesbyggð saman með 8%. Viðræður eru í gangi um aðkomu erlends fjárfestingarsjóðs að félaginu síðar á árinu, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu.

„Markmið félagsins er að vinna að uppbyggingu alþjóðlegrar stórskipahafnar og iðnaðar-og þjónustusvæðis í takt við ákall samtímans um sjálfbærni. Svæðið tengir saman Asíu við austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu. Staðsetning hafnarinnar í Finnafirði mun stytta alþjóðlegar sigilingaleiðir verulega og í kjölfarið minnka útblástur í flutningum,“ segir í tilkynningunni.

Á þessari teikningu frá Eflu má sjá hvernig áformin líta …
Á þessari teikningu frá Eflu má sjá hvernig áformin líta út, en greint hefur verið frá því að stefnt sé að því að hafnarbakkar stórskipahafnarinnar verði sex kílómetra langir. Tölvuteikning/Efla

Sveitarstjórar á svæðinu fagna áfanganum

Þar er haft eftir Þór Steinarssyni, sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, að undirritunin sé „mikið fagnaðarefni“ og að hafnarstarfsemi í Finnafirði muni styrkja stöðu sveitarfélaganna á svæðinu verulega og skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf á öllu Norðausturlandi.

Elías Pétursson sveitarstjóri Langanesbyggðar segir að sveitarfélagið hafi um langa hríð stefnt að þeim áfanga sem náðist í dag. „Höfnin mun efla byggðina hér á svæðinu og fjölga tækifærum á Norður- og Austurlandi enda má segja að með höfninni myndist hér ný gátt út í heiminn,“ er haft eftir Elíasi í fréttatilkynningu.

Hafsteinn Helgason frá Eflu hélt stutta tölu um Finnafjarðarverkefnið.
Hafsteinn Helgason frá Eflu hélt stutta tölu um Finnafjarðarverkefnið. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Þá er haft eftir Robert Lowe, forstjóra Bremenports, að staðsetning hafnarinnar muni „breyta alþjóðasiglinum til frambúðar“ og að hún geti leitt til „verulegs umhverfisábata þar sem þetta mun minnka útblástur“.

Aðstæður til uppbyggingar „einstakar á landsvísu“

Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar hjá Eflu, segir að stórskipahöfnin í Finnafirði sé „risavaxið verkefni“ og að uppbygging hafnarinnar muni „standa yfir í áratugi“. Haft er eftir honum að við rannsóknir verkfræðistofunnar á svæðinu á síðustu árum hafi komið í ljós að aðstæður til hafnaruppbyggingar í firðinum séu „einstakar á landsvísu og þótt víðar væri leitað við Norður-Atlantshafið“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert