Gagnrýnir þjóðarsjóðinn

Þórólfur Gíslason vill nýta auðlindir skynsamlega.
Þórólfur Gíslason vill nýta auðlindir skynsamlega. mbl.is/RAX

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki, gagnrýnir stofnun þjóðarsjóðs svokallaðs í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann í dag. Hugmyndir eru uppi um að arður af rekstri Landsvirkjunar renni inn í slíkan sjóð, sem mæta eigi ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir í framtíðinni.

„Ég hef miklar efasemdir um þjóðarsjóðinn. Ég held að þar séu menn á villigötum,“ segir Þórólfur. „Við erum eyja úti í miðju Atlantshafi, en við erum með stórt land með miklar auðlindir og þurfum ekki að hafa neina minnimáttarkennd. Það eru fiskimið í kringum landið, landið sjálft nýtist til matvælaframleiðslu og hingað koma ferðamenn. Landið er orkuríkt, bæði varðandi háhita og fallvötn. Þetta vegur upp á móti fámenninu, og vegur upp á móti því að við erum með mjög dýran aðgang að mörkuðum vegna legu landsins.“

Þórólfur bætir við að nýta þurfi auðlindirnar skynsamlega, og þar með raforkuna því hún þurfi að vega upp á móti öðrum kostnaði sem Íslendingar hafi af vörum og flutningi og slíku. „Því finnst mér miklu eðlilegra að fallorkan sé nýtt til að auka samkeppnishæfni samfélagsins og fyrirtækja og auka kaupmátt almennings, frekar en að ríkið sé með orkuna á sínum vegum að gera einhvern sjóð sem ég hef miklar efasemdir um að menn hafi einhverja stjórn á, og ætli að láta verða einhvern öryggissjóð. Ég held að þetta verði bara einhver framkvæmdasjóður. Við höldum ekki kaupmætti uppi í samfélaginu nema samkeppnishæfni samfélagsins sé í lagi,“ segir Þórólfur.

Þá telur hann að menn eigi ekki að vera fikta við lagningu sæstrengs til að selja rafmagn til Evrópu, að því er fram kemur í samtalinu við Þórólf í ViðskiptaMogganum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert