Fellibylurinn ekki það hættulegasta

Ina Steinke ásamt dóttur sinni. Þarna hafði hún ekki sofið …
Ina Steinke ásamt dóttur sinni. Þarna hafði hún ekki sofið í þrjá daga vegna hugarangurs um Kenneth. Ljósmynd/Ina Steinke

„Jafnvel þó að fólk vildi fara þá getur það ekki yfirgefið heimili sín. Það á engan stað til að fara á. Ef það fer þá á það líka á hættu á að þjófar komi og steli öllu steini léttara,“ segir Ina Steinke, íslensk kona sem búsett er í borginni Pemba í norðausturhluta Mósambík.

Hvirfilbylurinn Kenneth skall á Mósambík í gær en 30 þúsund manns hafa flúið heimili sín vegna hans.

„Akkúrat hér er minni skaði en búist var við því Kenneth breytti um átt á síðustu stundu,“ segir Ina. Húsið hennar stendur enn enda er það sterkbyggðara en mörg önnur hús í Mósambík. „Fyrir norðan Pemba er gjörsamlega allt eyðilagt. Skólar og sjúkrahús eru í rúst og brýr hafa farið í sundur.“  

Rigningin verri en vindurinn

Ina segir það sem á eftir fellibylnum komi hættulegra en fellibylurinn sjálfur. „Eftir fellibylinn koma nokkrir dagar af rigningu. Vindurinn er ekki jafn skaðlegur og rigningin því með rigningunum verður mikil flóðahætta.“

Annar hvirfilbylur, Idai, reið yfir landið fyrir stuttu síðan en Mósambík hefur ekki enn náð að jafna sig eftir hann. Um 900 manns létust af hans völdum í Mósambík, Malaví og Simbabve. Um 90% borgarinnar Beira, fjórðu stærstu borgar í Mósambík, eyðilagðist í fellibylnum.

 „Það hefði enginn trúað á aðvaranir ef Idai hefði ekki riðið yfir fyrir sex vikum. Fellibyljir eru ekki daglegur veruleiki í Mósambík en það lítur út fyrir að þeir verði það eins og loftslagsmálin standa,“ segir Ina.

Sumir skilja ekki aðvaranir

Þótt varað hafi verið við fellibylnum fyrir tveimur vikum segir Ina að heilu samfélögin hafi ekki fengið fréttir af komandi óveðri. „Fréttirnar eru á portúgölsku og það er fullt af fólki sem talar ekki portúgölsku og skilur ekki veðurkortin.

Þó að fólk hafi skilið aðvaranirnar getur það ekki bara hoppað upp í bíl og farið, það á ekki neitt og um leið og fólk yfirgefur sitt þá er einhver kominn til að taka það. Spurningin er því hvort fólk vilji bjarga lífi sínu og lifa allslaust eða reyna að bjarga húsinu sínu og eigum sínum.“

Einungis hurð eftir af húsi sem eyðilagðist í fellibylnum Idai.
Einungis hurð eftir af húsi sem eyðilagðist í fellibylnum Idai. AFP

Aðspurð segir Ina, sem býr með börnum sínum og eiginmanni í Pemba, að þau hafi hugsað um að yfirgefa svæðið, enda fær um það. „Ég reyndi að vera hetja en við sátum bara hérna og skulfum þegar þetta skall á en það er mikið af fólki sem reiðir sig á okkur og ef einhver er öruggur þá erum það við. Ég væri ekki hér ef ég væri hrædd um líf mitt. Við erum með plan og herbergi sem er sterklega byggt ef allt fer á versta veg.“

Þau hjónin eiga hús sem þau hafa leigt út hingað til. Það stóð autt þegar fellibylurinn nálgaðist og þau reyndu að fá sitt fólk, vinnufólk, barnfóstrur og fleiri, til þess að koma sér fyrir þar, sem og á heimili þeirra hjóna.

„Við reyndum að pakka í öll pláss sem við eigum en það voru ekki allir sem vildu yfirgefa heimili sín vegna hættunnar á að öllu yrði stolið. Það er raunveruleikinn og gerðist í Beira þegar Idai reið yfir. Það er mikið af hryðjuverkum í norðrinu. Al Shabaab afhausar fólk og brennir þorpin.“

Með fjögurra daga gamlan son og hús á floti

Kona sem vinnur fyrir Inu fór heim í gærnótt til að gæta að húsinu sínu og komst í hann krappann. „Ein vinnukonan mín er með fjögurra daga gamalt barn. Hún fór heim í gær til þess að athuga hvort það væri ekki í lagi með húsið og svaf þar. Svo byrjaði rigningin í nótt og vatn fór að renna í gegnum húsið hennar.

Hún þurfti að halda í drenginn sinn og beygja sig yfir hann svo það læki ekki vatn á hann. Samt er hún okkar manneskja og hefur val um að búa við betri aðstæður á meðan óveðrið geisar. Það eru hundruðir þúsunda sem hafa ekkert val.“

Joana Joni Amelico lagar moldarveggi heimilis síns í Beira sem …
Joana Joni Amelico lagar moldarveggi heimilis síns í Beira sem eyðilagðist í vindum vegna Idai. Borgin hefur ekki enn náð að jafna sig eftir fellibylinn. AFP

Ina segir að þau sem yfirgefi heimili sín fái enga hjálp. „Það er öllum sama og enginn hjálpar þeim. Þau búa mörg hver eins og hvert annað dýr í frumskóginum. Það er ekki eitthvað sem fólk vill, ekki einu sinni í fátækustu Afríku. Í frumskóginum er mikið af hættulegum dýrum og hungursneyð.“

Hjálparsamtök veigra sér við að senda fé

Hjálparsamtök halda að sér höndum þegar kemur að því að senda fé til neyðaraðstoðar í Mósambík. „Spillingin hérna er svo mikil að hjálparstofnanir veigra sér við að senda fé. Fólkið sem hefur aðgang að neyðaraðstoðinni situr á henni eins og konungar í ríki sínu. Konur selja sig fyrir poka af hrísgrjónum. Það er engin fegurð í þessu, fátæktin er svo mikil að fólk verður að algjörum svínum og því er alveg sama um náungann,“ segir Ina og biðlar til Íslendinga um að leggja sitt af mörkum.

„Fólk ætti að hjálpa þar sem það getur og athuga hvert það er að setja peningana sína. Við vorum með söfnun fyrir Beira eftir Idai og verðum líklega með aðra söfnun. Á svona tímum og í svona landi er mikilvægt að peningurinn komist til skila en hér er það nánast ómögulegt. Þar sem allir eru að berjast við fátækt berjast allir um hvern einasta skammt. Forsetinn er þar ekki undanskilinn.“

Loftslagsbreytingar skella á þeim sem eiga enga sök

Allt liggur niðri í Pemba og víðar eins og staðan er núna. „Eins og alls staðar þá fúnkerar landið bara á þeim sem minnst mega sín. Þau sem hafa það verst eru þau sem halda landinu uppi og það fólk getur ekki mætt til vinnu því það er upptekið við að halda húsunum sínum uppi.“

Ina telur óveðrið tilkomið af loftslagsbreytingum enda óveður sem þetta óvenjulegt í Mósambík sem er mjög fátækt land. „Fólk verður að hugsa um það hvernig það fer með jörðina. Þetta er svo ofboðslega ósanngjarnt, fólkið hérna á ekki neitt og á ekki sök á loftslagsbreytingum lendir í afleiðingum þeirra. Þetta fólk þarf að borga fyrir loftslagsbreytingarnar en á það ekki skilið,“ segir Ina. Hún hefur nú þegar heyrt af minnst fimm dauðsföllum í Mósambík vegna Kenneth.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert