Uppbyggingu í Kerlingarfjöllum verði frestað

Í valkosti 4 er gert ráð fyrir að nær allar …
Í valkosti 4 er gert ráð fyrir að nær allar eldri byggingar yrðu fjarlægðar og fjórar nýjar gistiálmur byggðar. Skjáskot/Umhverfismatsskýrsla Mannvits

Skipulagsstofnun telur að fresta eigi ákvörðunum um viðamikla uppbyggingu Fannborgar á hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum m.a. vegna þess að fyrirhugað er að leggja heildarmat á þörf fyrir ferðaþjónustuuppbyggingu á miðhálendinu og að stjórnvöld stefna að stofnun þjóðgarðs á því svæði og er þegar unnið að undirbúningi hans.

Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar uppbyggingar Fannborgar í Kerlingarfjöllum.

Fannborg, sem rekur ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum, hefur kynnt áform um verulega uppbyggingu þar. Í matsskýrslu kynnir fyrirtækið fjóra valkosti: Valkost 1 sem felst í núverandi mannvirkjum og starfsemi auk úrbóta á fráveitu og valkosti 2-4 sem fela í sér mismikla uppbyggingu og mismunandi útfærslu, en eiga það sameiginlegt að megináherslan er á gistingu í hótel-/gistiheimilagistingu, auk veitingarekstrar.

Núverandi mannvirki í Ásgarði, Kerlingarfjöllum, og afmörkun nýrra bygginga samkvæmt …
Núverandi mannvirki í Ásgarði, Kerlingarfjöllum, og afmörkun nýrra bygginga samkvæmt valkosti 1 og 4. Skjáskot úr umhverfismatsskýrslu Mannvits

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að umfang uppbyggingar samkvæmt valkostum 3 og 4 yrði án fordæma í hálendismiðstöðvum á miðhálendinu og jafnframt með stærstu gististöðum á landinu utan höfuðborgarsvæðisins, en þeir fela báðir í sér gististað fyrir nálægt 300 gesti.

Stofnunin bendir á að um langt skeið hefur verið við lýði sú stefna, sem nú er sett fram í Landsskipulagsstefnu 2015–2026, að á miðhálendinu skuli öll uppbygging taka mið af sérstöðu hálendisins og að standa skuli vörð um náttúru og landslag miðhálendisins. Um ferðaþjónustuuppbyggingu segir í landsskipulagsstefnu að gæta verði að því að óbyggðaupplifun og náttúrugæði skerðist sem minnst vegna mannvirkja og umferðar. Jafnframt skuli uppbygging ferðamannaaðstöðu á miðhálendinu vera takmörkuð en ferðafólki um miðhálendið standa til boða viðeigandi mannvirki og þjónusta, m.a. með tilliti til álagsþols náttúrunnar.

Um hálendismiðstöðvar segir m.a. að þar felist þjónustustarfsemi fyrst og fremst í rekstri gistingar og tjaldsvæða auk fræðslu og eftirlits, en einnig geti verið um einhvern verslunar- og veitingarekstur að ræða. Gisting skuli almennt vera í gistiskálum, auk tjaldsvæða. Einnig sé möguleiki á að bjóða upp á hótel- og gistiheimilagistingu, enda sé slík gisting aðeins hluti gistiframboðs á viðkomandi stað og falli að öllu leyti að kröfum um óbyggðaupplifun.

Samanburður á valkosti 1, sem er óbreytt ástand, og valkosti …
Samanburður á valkosti 1, sem er óbreytt ástand, og valkosti 2. Skipulagsstofnun telur að valkostur 2 geti falið í sér óveruleg áhrif á ferðaþjónustu, útivist, landslag og náttúrufar. Skjáskot/Umhverfismatsskýrsla Mannvits

„Kerlingarfjöll eru sérstakt og viðkvæmt svæði sem endurspeglast í margvíslegum verndarákvæðum sem um það gilda og er nú unnið að friðlýsingu Kerlingarfjalla,“ segir í áliti stofnunarinnar. „Háhitasvæðið þar einkennist af mikilli hveravirkni og ummyndun og telst hafa mjög hátt verndargildi og vera fágætt á heimsvísu. Meirihluti háhitasvæðisins er óraskaður og er það eitt af fáum óröskuðum háhitasvæðum á Íslandi.“

Skipulagsstofnun telur  framlögð gögn benda til þess að farið verði yfir þolmörk náttúruferðamennsku og náttúru svæðisins ef ferðamönnum í Kerlingarfjöllum fjölgar mikið umfram það sem orðið er. Veruleg uppbygging gisti- og veitingaþjónustu í Kerlingarfjöllum sé til þess fallin að fjölga ferðamönnum og álagi á svæðinu. Ætla megi, ef ferðamönnum í Kerlingarfjöllum fjölgi mikið frá því sem nú er, að Kerlingarfjöll breytist sem ferðamannastaður, þ.e. frá ferðamennsku sem felst í að upplifa óraskaða náttúru og kyrrð og ró, án ummerkja um fjöldaferðamennsku. Þannig muni veruleg fjölgun ferðamanna í Kerlingarfjöllum geta leitt til skerðingar á óbyggðaupplifun og þar með víðernum, jafnframt því sem álag ykist á viðkvæmar jarðminjar og gróður á háhitasvæðunum.

Hvað varðar umfang og eðli fyrirhugaðrar uppbyggingar og starfsemi samkvæmt valkostum 3 og 4, þá feli hún í sér stefnubreytingu frá því sem gildir samkvæmt landsskipulagsstefnu og skipulagi fyrir svæðið og jafnframt fordæmi fyrir uppbyggingu ferðaþjónustustaða almennt á miðhálendinu.Það sama á að mati stofnunarinnar við valkost 2 hvað varðar eðli þeirrar gistiþjónustu sem þar er fyrst og fremst áformuð.

Skipulagsstofnun telur mikilvægt að líta heildstætt á þróun ferðaþjónustuuppbyggingar á miðhálendinu. Samkvæmt landsskipulagsstefnu er fyrirhugað að leggja heildarmat á þörf fyrir ferðaþjónustuuppbyggingu á miðhálendinu og endurskoða fyrirliggjandi stefnu um útfærslu vega þar. Þá stefna stjórnvöld að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og er unnið að undirbúningi hans. Telur Skipulagsstofnun að við þessar aðstæður beri að fresta ákvörðunum um jafn viðamikla uppbyggingu og valkostir 3 og 4, samkvæmt tillögum Fannborgar, fela í sér.

Í valkosti 3, sem hér er sýndur, er gert ráð …
Í valkosti 3, sem hér er sýndur, er gert ráð fyrir að eldri byggingum hafi fækkað en gistiálmur bætist við þannig að heimild deiliskipulags og aðalskipulags Hrunamannhrepps verði fullnýtt, hvað fjölda gistirýma varðar. Byggðar yrðu tvær gistiálmur, hvor um sig með 40 tveggja manna herbergjum. Samtals verður þar gistipláss fyrir 160 manns. Skjáskot/Umhverfismatsskýrsla Mannvits

Uppbygging af þeirri stærðargráðu geti haft veruleg neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna af svæðinu og þolmörk ferðamennsku og breytt varanlega samsetningu ferðamanna og upplifun þeirra af svæðinu. Uppbygging, samkvæmt valkostum 3 og 4, geti að sama skapi haft veruleg neikvæð áhrif á landslag, jarðmyndanir og gróður. Fjölgun ferðamanna og breytt eðli ferðamennsku á svæðinu valdi álagi á jarðmyndanir og gróður og rýri óbyggðaupplifun á svæði með mjög hátt verndargildi. Valkostur 1 felur í sér núverandi mannvirki og starfsemi, þannig að líklegt er að áhrif hans séu þegar komin fram.

Valkostur 2 felur í sér óverulega fjölgun gistirúma, en talsverða breytingu á samsetningu þeirra, þ.e. úr gistiskálagistingu í hótel/gistiheimilagistingu, ásamt tvöföldun á stærð veitingarstaðar. Skipulagsstofnun telur að valkostur 2 geti falið í sér óveruleg áhrif á ferðaþjónustu, útivist, landslag og náttúrufar, að því gefnu að við endanlega hönnun og leyfisveitingar til framkvæmda og rekstrar verði tryggt að ráðandi hluti gistingar verði gistiskála- og/eða fjallaskálagisting.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert