Miðflokkurinn með tæp 9%

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðustól Alþingis.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðustól Alþingis. mbl.is/Hari

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki mælst meiri síðan í júní í fyrra en hann eykst um fjögur prósent milli mánaða í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi einstakra stjórnmálaflokka breytist mjög lítið á milli mánaða. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Af þeim sem tóku afstöðu í Þjóðarpúlsi Gallup sögðust tæplega 52 prósent styðja ríkisstjórnina. Það eru fleiri en hafa stutt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur síðastliðið ár. Samanlagður stuðningur við ríkisstjórnarflokkana þrjá er 45 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi og mælist með tæplega 24 prósent, örlítið minna en síðast. Vinstri hreyfingin - grænt framboð nýtur stuðnings ríflega 13 prósent kjósenda og átta prósent segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn ef kosið væri nú.

Samfylkingin er næst stærsti flokkur landsins; rúmlega 16 prósent segjast mundu kjósa hana ef gengið væri til kosninga. Píratar og Viðreisn njóta stuðnings 11 prósent kjósenda hvor um sig. Tæplega níu prósent kjósenda styðja Miðflokkinn. Flokkur fólksins myndi ekki ná manni á þing ef kosið yrði nú en fjögur prósent segjast styðja flokkinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert