„Þið sjáið í hvað stefnir“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spyr hvort stuðningsmenn þriðja orkupakkans …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spyr hvort stuðningsmenn þriðja orkupakkans vilji helst tala um allt annað en innihald málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, segir greinilegt að nú styttist í að þriðji orkupakki Evrópusambandsins verði innleiddur. „Þið sjáið í hvað stefnir. Það er bara spurning hvað á að kasta mörgum drullukökum áður. Því fleiri sem þær verða því betra,“ skrifar hann í færslu á Facebook.

Fund­ur ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar á fimmtu­dag þar sem fjallað var um þriðja orkupakk­ann hef­ur vakið tals­verða at­hygli. Carl Baudenbacher, fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn, var meðal fundargesta. „Mér þykir nú nokkuð sér­stakt að á þess­um tíma­punkti skuli rík­is­stjórn­in sjá ástæðu til þess að kaupa lög­fræðiálit frá út­lönd­um,“ sagði Sig­mund­ur í sam­tali við mbl.is í gær um veru Baundenbacher á fundinum.

„Oftar en ekki vantar einn, tvo eða fleiri þingmenn“

Enginn fulltrúi Miðflokksins mætti á fundinn en Sigmundur segir í færslu sinni að oftar en ekki vantar einn, tvo eða fleiri þingmenn á nefndarfundi og að það getur átt sér ýmsar skýringar. Þá gagnrýnir hann fréttaflutning RÚV um fjarveru Miðflokksmanna á fundinum og spyr hann hvort það geti verið að stuðningsmenn orkupakkans vilji helst tala um allt annað en innihald málsins?

„RÚV hefur jafnan miklar áhyggjur þegar það telur að stjórnmálamenn eða aðrir hlýði ekki kerfinu. Það þarf að gera slíka menn tortryggilega,“ skrifar Sigmundur og bendir á að RÚV hafi þrjá daga í röð fjallað um að það hafi vantað fulltrúa Miðflokksins á einn auka nefndarfund, sem bætt var við áður auglýsta dagskrá.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, hefur þvertekið fyrir að leynd hafi ríkt yfir fundinum og segir það „afar merki­legt að formaður Miðflokks­ins ráðist nú að því að ein­hver leynd hafi hvílt yfir fundi ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar.“

Kallar þingmann Vinstri grænna „áburðardreifara“

Sigmundur gagnrýnir einnig Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann Vinstri grænna, sem birti færslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hann fer yfir forsætisráðherratíð Sigmundar og segir að hafi Sigmundur ekki vitað af viðræðum um orkupakkann á þeim tíma hafi hann ekki verið góður forsætisráðherra.

Sigmundur kallar þingmanninn áburðardreifara og segir Kolbein „aldrei skorast undan slíku frá því að hann var blaðamaður á Fréttablaðinu og notaði ófáar forsíður og aðrar greinar til að útskýra hvað það væri glatað hjá mér að þvælast fyrir Icesave.“

Sigmundur segir þetta eina af vísbendingunum sem birtast nú hver af annarri og að stutt sé í orkupakkann. Hvert tilvik sé fyrst og fremst áminning um að stuðningsmenn þriðja orkupakkans „skorti rök og fari því í mennina en ekki málin.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert