Vaxandi áhugi í Asíu á norðurslóðum

Lilja Alfreðsdóttir mennta– og menningarmálaráðherra er meðal ræðumanna á ráðstefnu …
Lilja Alfreðsdóttir mennta– og menningarmálaráðherra er meðal ræðumanna á ráðstefnu Hringborðs norðursins í Shanghaí. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði alþjóðlega ráðstefnu Hringborðs norðursins í Shanghaí í dag og fjallaði í ræðu sinni um mikilvægi vísindasamstarfs og nýsköpunar fyrir stefnumótun og framþróun á norðurslóðum.

„Það er mikil vitundavakning um þessi mál og Kínverjar eru að setja mikinn mannskap í að taka þátt í stefnumótun er varðar norðurskautið og að fylgjast mjög vel með,“ sagði Lilja þegar blaðamaður mbl.is náði örstuttu tali af henni þegar hún hafði nýlokið við að flytja erindi sitt.

Ráðstefnan hófst í gær með opnunarávarpi Ólaf­s Ragn­ars Gríms­sonar, formanni Arctic Circle, en ráðstefnuna sækja rúm­lega 500 full­trú­ar frá um 30 lönd­um: stjórn­mála­leiðtog­ar, emb­ætt­is­menn, vís­inda­menn, sér­fræðing­ar, full­trú­ar um­hverf­is­sam­taka og fjöl­marg­ir aðrir. Ráðstefn­an er hald­in í Vís­inda- og tækn­isafni Shang­haí.

Lilja segir áhuga kínverskra yfirvalda á málefnum norðurskautsins aukast mjög hratt. „Og áhuginn er vaxandi í Asíu vegna afleiddra áhrifa af hlýnun jarðar, til að mynda er því spáð að með bráðnun jökla hækkar yfirborð sjávar hér í Shanghaí um 18,5 sentímetra á næstu 30 árum.“  

Í ræðu sinni fjallaði Lilja um þekkingu og nýsköpun sem eykur lífsgæði okkar allra. „Samstarf á sviði vísindarannsókna, og ekki síst þeim sem snúa að málefnum norðurslóða þar sem við eigum ríkra hagsmuna að gæta, skiptir okkur miklu máli nú og til framtíðar,“ sagði Lilja meðal annars í ræðu sinni. Sagði hún íslenskt stjórnvöld hafa átt farsælt samstarf við Kína á fjölmörgum rannsóknasviðum og að það ríki gagnkvæmur skilningur á mikilvægi þess að viðhalda því og þróa það áfram.

„Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“

Ísland tók formlega við formennsku í Norðurskautsráðinu fyrr í vikunni og er yfirskrift formennskuáætlunar Íslands næstu tveggja ára „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“.

Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir að Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og alþjóðapólitískt vægi formennskunnar hefur aukist á undanförnum árum.

Meginstoð í tvíhliða samskiptum Íslands og Kína snýr að norðurslóðasamstarfi landanna, en það byggir á rammasamningi sem undirritaður var af utanríkisráðherrum landanna í opinberri heimsókn Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína til Íslands árið 2012. Viljayfirlýsing utanríkisráðuneytisins og Hafmálastofunar Kína um vísindasamstarf á sviði heimskauta- og hafrannsókna var síðan undirrituð á grundvelli hans.

Megináherslan í norðurslóðasamstarfi Íslands og Kína er á vísinda- og rannsóknarsamstarf á sviði háloftarannsókna, loftslagsrannsókna, jarðvísinda, samgöngumála og hafrannsókna á heimskautasvæðum. Rannís hefur annast framkvæmd samstarfsins fyrir hönd Íslands en Heimskautastofnun Kína (PRIC) af hálfu Kína.

Heimskautastofnunin er opinber rannsóknarstofnun staðsett í Shanghaí og heyrir undir auðlindaráðuneyti Kína. Starf PRIC er þungamiðja norðurslóðarannsókna í Kína og starfrækir stofnunin rannsóknastöð á Svalbarða, fjórar rannsóknastöðvar á Suðurskautinu og rekur ísbrjótinn, Snædrekann (Xuelong). Á síðasta ári var opnuð norðurslóðarannsóknarmiðstöð að Kárhóli í Þingeyjarsveit í samstarfi PRIC og Rannís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert