Stoltur af syninum eftir björgunarafrek

Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Matthíasson, íbúi í Staðahverfinu í Grafarvogi, er fullviss um að sonur hans hafi bjargað lífi kajakræðarans sem fór í sjóinn við Geldinganes á níunda tímanum í kvöld.

Blaðamaður mbl.is fékk þær upplýsingar fyrr í kvöld að félagi mannsins hafi bjargað honum en raunin er sú að tilviljun réð því að ræðarinn sást ofan í sjónum. Ekki var það félagi kom honum til bjargar heldur feðgar sem búa í nágrenninu.

Sigurður og sonur hans Bjartur Snær, sem er tvítugur, voru í rólegheitum á heimili sínu þegar Sigurður sá fuglager út um gluggann en mjög gott útsýni er yfir Geldinganes frá heimili þeirra. „Ég er með mjög góðan sjónauka. Ég kíki reyndar ekki oft í hann en ákvað að kíkja þarna og sjá hvað væri í gangi og sá allt í einu að þetta var kajak á hvolfi,“ greinir hann frá.

Frá vettangi í kvöld.
Frá vettangi í kvöld. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Því næst bað hann Bjart, sem hafði legið sofandi uppi í sófa, um að koma og sjá hvað væri að gerast. Sáu þeir þá að kajakræðarinn var fyrir utan kajakinn og komst ekki í hann. Örskömmu síðar var hann byrjaður að synda, langt úti á sjó. „Svo hreyfðist hann ekki,“ segir Sigurður, sem hringdi umsvifalaust í lögregluna og bað Bjart um að reyna að bjarga honum.

Hann fór í sjógalla, hljóp niður með kajakinn sinn og reri svo dágóðan spöl að manninum, líkast til um fimmtán mínútur. „Ég held að hann hafi ekki átt séns,“ segir Sigurður um manninn og bætir við að kajakræðarinn sjálfur hafi lýst því eftir á að „hann hefði aldrei meikað þetta“ ef honum hefði ekki verið bjargað. Gallinn hans var orðinn fullur af vatni, hann nötraði og leit illa út.

Sjúkra-, lögreglu- og björgunarbílar á vettvangi í kvöld.
Sjúkra-, lögreglu- og björgunarbílar á vettvangi í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru 99% líkur á að hann hafi bjargað lífi hans,“ segir Sigurður, spurður nánar út í  björgunarafrek sonar hans og bætir við að líkurnar hafi verið „einn á móti hundrað“ að hann skuli hafa ákveðið að horfa í sjónaukann. „Ég er mjög stoltur af stráknum því þetta er enginn smá hraði á kajak að reyna að bjarga honum.“  

Bjartur Snær náði kajakræðaranum og reri með hann í land áður en björgunarmenn komust að þeim. Á meðan blaðamaður ræddi við Sigurð fékk hann upplýsingar um að maðurinn væri heill á húfi.

Ljósmynd/Aðsend

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem Sigurður tók út um gluggann hjá sér, þar af ein sem hann tók í gegnum sjónaukann sinn en slökkviliðs- og lögreglumenn fengu um tíma að nota heimili hans til að fá yfirsýn yfir svæðið enda útsýnið þaðan gott. 

Bjartur Snær Sigurðsson.
Bjartur Snær Sigurðsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert