„Bersýnilega málþóf“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var 12 sinnum á mælendaskrá …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var 12 sinnum á mælendaskrá í gær og segir umræðuna „bersýnilega“ vera komna út í málþóf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru eng­in tak­mörk á því í starfs­regl­um þings­ins hversu marg­ar ræður má halda í ann­arri umræðu um frum­vörp inni á þingi.

Í dag hefst þingfundur klukkan 13.30. Þar verður þriðji orkupakkinn þriðja mál á dagskrá. Sá fundur gæti líka staðið langt fram á nótt.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, telur umræðuna á þinginu „bersýnilega“ vera komna út í málþóf núna. Þingfundi var slitið klukkan 5.42 í morgun, eftir að stigið hafði verið í pontu 287 sinnum frá því 17.43 síðdegis í gær. Helgi Hrafn tók sjálfur 12 sinnum til máls en þurfti frá að hverfa áður en yfir lauk.

Bryndís Haraldsdóttir, 6. varaforseti þingsins, sat fundinn þar til um fjögurleytið í morgun. Í samtali við mbl.is segir hún Miðflokksmenn í málþófi. Engin takmörk séu á ræðuhöldum í annarri umræðu, segir Bryndís. „Þingsköpin okkar eru gölluð að þessu leyti,“ segir hún.

Bryndís treystir sér ekki til þess að fullyrða um hve lengi þetta kann að standa. „Þeir hafa frelsi til að tala á meðan þeir telja eitthvað óframkomið í málinu. Ég sé ekki annað en að fólk hljóti að sjá á endanum að önnur mál eru mikilvægri,“ segir hún.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 6. varaforseti þingsins, segir þingmenn …
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 6. varaforseti þingsins, segir þingmenn Miðflokksins hafa verið að spyrja spurninga sem þeir vissu svarið við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það eru aðeins sex þingfundir eftir samkvæmt starfsáætlun þingsins, auk eldhúsdags. Bryndís segir „harla ólíklegt“ að meint málþóf standi út þingið.

„Ef það er ekki málþóf þá er málþóf bara einhver hjátrú“

„Þetta er bersýnilega málþóf. Það er hlægilegt að ímynda sér eitthvað annað. Þeir fara í andsvör við hver annan innan flokks fram á morgun. Ef það er ekki málþóf þá er málþóf bara einhver hjátrú,“ segir Helgi Hrafn.

„Ég get ekki sagt til um hvað liggur að baki hjá þeim. Eflaust eru þetta hjá sumum þeirra einlægar áhyggjur af þessu máli. Tveir þingmenn Miðflokksins finnst mér samt hafa snúið svo svakalega út úr staðreyndum að ég trúi því ekki að þeir séu að halda umræðunni gangandi af málefnalegum ástæðum. Það gildir samt ekki um þá alla,“ segir Helgi Hrafn.

„Það er auðvitað eðlilegt að fólk fái þann tíma sem það telur sig þurfa til að ræða málin. Að sama skapi finnst mér að séu svona langar umræður yfir nóttina dragi úr getu umræðunnar til að verða árangursrík. En þriðji orkupakkinn er hitamál í samfélaginu og mér finnst eðlilegt að það sé rætt mjög mikið í þingsal,“ segir Helgi Hrafn.

Voru að spyrja spurninga sem þeir vissu svarið við

„Miðflokksmenn eru í málþófi um þriðja orkupakkann,“ segir Bryndís. Hún situr í utanríkismálanefnd, sem vísaði málinu í aðra umræðu í upphafi síðustu viku. „Þeir voru einir á mælendaskrá á tíma og fóru í andsvör við sjálfa sig með skjalli um samflokksmenn sína,“ segir hún. „Þeir voru að spyrja spurninga sem þeir vissu svarið við.“

Fæstir voru staddir í salnum alla nótt og undir lokin voru það aðeins þeir sem voru á mælendaskrá og svo þeir sem annast utanumhald þingstarfs, svo sem forsetar þingsins. „Það er ekki með neinu móti hægt að skylda neinn til þess að hlusta á þetta,“ segir Bryndís.

Hún segir þingmönnum frjálst að hlusta á fundinn heima við kjósi þeir svo. „En ég efast um að það séu margir sem hlusti á þessar ræður langt fram á nótt,“ segir hún.

Helgi segir að þegar umræðan sé komin út í málþóf þurfi samt að gæta þess að dæma hana ógilda. „Mér finnst mikilvægt að hafa í huga þegar við tölum um málþóf,“ segir Helgi, „að það virkar ekki þannig að sá sem þæfir geri það bara af röngum ástæðum. Það er lenska hjá þeim sem er á öndverðum meiði við þá sem standa í málþófinu að halda sig frá umræðunni, dæma þetta málþóf og taka þess vegna ekki þátt. Ég er á móti þessari nálgun. Ef fólk telur sig hafa ástæðu til þess að ræða málin mjög lengi, þá eigum við bara að ræða þau mjög lengi og rekja punktana aftur og aftur ef þess þarf,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert