Ráðist á starfsmann Krónunnar

Ráðist var á Destiny Mentor Nwaokoro þar sem hann var …
Ráðist var á Destiny Mentor Nwaokoro þar sem hann var við störf í einni af verslunum Krónunnar fyrir helgi. mbl.is/Hjörtur

Mig langar að benda á að orðið negri er orð sem er aldrei í lagi að nota eða beita eða segja eða skrifa. Þetta er niðrandi orð, og ógeðslegt,“ skrifar Árdís Pétursdóttir í færslu á Facebook fyrir helgina. Ráðist var á eiginmann hennar, Destiny Mentor Nwaokoro, þar sem hann var við störf í Krónunni.

Viðskiptavinur réðst á Destiny, fór niðrandi orðum um kynþátt hans, lamdi og hrinti honum. 

Árdís lýsir því á Facebook hvernig Destiny hafi boðið manninum góðan daginn, á íslensku, og spurt hvort hann gæti aðstoðað. Maðurinn hafi svarað því reiðilega og spurt hvort hann væri að tala við sig.

Þessi maður snýr sér svo að Destiny, kallar hann negra, og byrjar að garga á hann svo glymur um alla verslun,“ skrifar Árdís og bætir því við að maðurinn hafi lamið Destiny með báðum höndum í bringuna og farið afar niðrandi orðum um kynþátt hans.

Maðurinn hafi síðan hrint Destiny og spurt hvort hann vildi slást. Því hafi Destiny ekki svarað en maðurinn kom alveg upp að honum og öskraði á hann. 

Samstarfsfélagar snöggir á staðinn

Sem betur fer þá voru samstarfsfélagar hans nokkuð snöggir á staðinn þegar þeir heyra þessi niðuryrði öskruð, og ganga á milli þeirra til að varna því að gengið yrði hreinlega í skrokk á Destiny,“ skrifar Árdís. Viðskiptavinir urðu vitni að atvikinu og ber þeim saman um að Destiny hafi ekkert sagt né gert á meðan því stóð.

Árdís segir að Destiny sé skiljanlega í uppnámi, sár og reiður vegna þess sem gerðist. Hún segir að til að kæra svona árás þurfi að hringja strax í lögreglu. Það hafi ekki verið gert, heldur hafi hún sjálf hringt í lögreglu.

Þar er mér sagt að fyrst enginn hringdi í lögregluna þarf að panta tíma hjá lögreglunni og bíða í nokkra daga til að fá tíma. Það er með allar kærur. Svo nú tekur við smá vinna að vinna úr þessari uppákomu skiljanlega. Það er hræðilegt að lenda í þessu, og hræðilega erfitt að eiga ekki stórt stuðningsnet þegar eitthvað bjátar á eins og við sem erum hér fædd og uppalin,“ skrifar hún.

Já gott fólk, þetta gerðist hér á Íslandi, þetta herrans ár 2019. Rasisminn lifir góðu lífi hér á landi.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert