Aukin áhætta vegna skipulagðra glæpa

Lögreglumaður að störfum.
Lögreglumaður að störfum. mbl.is/Eggert

Áhætta vegna helstu brotaflokka skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi fer enn vaxandi. Samkvæmt áhættulíkani löggæsluáætlunar er niðurstaðan „gífurleg áhætta“ þegar kemur að mati á skipulagðri glæpastarfsemi.

Þetta kemur fram í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni. Niðurstaðan er í samræmi við þá sem greiningardeild birti í skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi árið 2017 þar sem kom fram að þáverandi aðstæður voru „ekki til þess fallnar að hamla gegn skipulagðri brotastarfsemi í landinu“.

Líkan löggæsluáætlunar kveður á um fjögur áhættustig. Þau eru: lítil áhætta, möguleg áhætta, mjög mikil áhætta og gífurleg áhætta. Þeim er lýst eftir alvarleika sem grænu, gulu, rauðu og svörtu.

Allir fimm brotaflokkarnir sem fjallað er um í skýrslunni hafna í rauðu eða svörtu þrepi.

Matið lýsir þeirri áhættu sem lögregla telur að skipulögð glæpastarfsemi valdi. Það felur ekki í sér heildareinkunn fyrir öryggisstigið í landinu og telst Ísland enn vera öruggt samfélag í alþjóðlegum samanburði. Á hinn bóginn telur greiningardeild ríkislögreglustjóra það skyldu sína að benda á þróun sem kann að breyta þeirri stöðu.

Niðurstöður skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra eru í samræmi við það mat Evrópulögreglunnar (Europol) frá því í apríl síðastliðnum að skipulögð glæpastarfsemi sé helsta ógnin við öryggi ríkja álfunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert