Ófremdarástand á Alþingi

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert

„Forseti vill nú upplýsa að þingfundur hefur staðið hér á Alþingi í réttan sólarhring og reyndar nokkrum mínútum betur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, á ellefta tímanum í morgun.

Þingfundur hófst klukkan 10.30 í gærmorgun og að frátöldum matarhléum og fundarhléum hefur virkur fundartími verið um 22 klukkustundir en eins og síðustu daga var þriðji orkupakkinn eina umræðuefnið.

Steingrímur sagði að ófremdarástand væri komið upp á Alþingi vegna málþófs Miðflokksins og að hann ætlaði ekki að afhenda flokknum dagskrárvaldið á Alþingi. Á meðan málþófið standi yfir bíði önnur mál afgreiðslu.

„Sú umræða hefur staðið í yfir 132 klukkustundir. Þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í rúmlega 110 klukkustundir. Andsvör í þessari umræðu eru orðin 2.675 og hafa tekið 85 klukkustundir í flutningi,“ sagði Steingrímur.

Hann bætti því við að ekki væri um raunveruleg andsvör að ræða, heldur samsvör skoðanabræðra í málinu.

Steingrímur sagði að samtöl og tilmæli við Miðflokksmenn hefðu ekki borið árangur. Það væru honum mikil vonbrigði og væri fullreynt að höfða til sanngirni og ábyrgðarkenndar þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert