Geta kolefnisjafnað eldsneytiskaup

Viðskiptavinum gefst kostur á að kolefnisjafna eldsneytiskaup sín hjá Orkunni.
Viðskiptavinum gefst kostur á að kolefnisjafna eldsneytiskaup sín hjá Orkunni. mbl.is/Júlíus

Frá og með deginum í dag geta viðskiptavinir Orkunnar nýtt Orkulykilinn sinn til að kolefnisjafna eldsneytiskaup og þannig lagt sitt af mörkum til að minnka kolefnisfótspor og stuðla að bættri umhverfismenningu. Stefnt er að því að kolefnisjafna reksturinn að fullu í samstarfi við Votlendissjóð.

Þetta er í fyrsta sinn sem hægt er að kolefnisjafna eldsneytiskaup hér á landi en það kostar viðskiptavini Orkunnar ekkert aukalega að leggja málefninu lið. 

„Þetta virkar á þann hátt að viðskiptavinir geta farið inn á heimasíðu Orkunnar og breytt lyklinum eða kortinu sínu svo þeir geti kolefnisjafnað eldsneytiskaupin. Eftir breytinguna verður það þá þannig að 7 króna afslætti af hverjum lítra sem viðskiptavinurinn dælir verður ráðstafað til Votlendissjóðs. Sé viðskiptavinur með meiri afslátt en þessar 7 krónur fær hann mismuninn að sjálfsögðu í sinn vasa. Framlagi viðskiptavina er skilað til Votlendissjóðs en þeir fjármunir sem safnast verða nýttir til endurheimtar votlendis.“ Þetta er haft eftir Ingunni Agnesi Kro, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Orkunnar og Skeljungs, í tilkynningu. 

„Það er mikilvægt að stöðva alla losun sem hægt er strax. Orkuskiptin í samgöngum eru að eiga sér stað en það mun eðlilega taka sinn tíma fyrir almenning að skipta út bílum og eins tekur uppbygging í almenningssamgöngum tíma og kostar töluverða fjármuni. Einhvers staðar verður að byrja og við hjá Orkunni erum komin á fulla ferð áfram til að gera okkar fyrir umhverfið.“ Þetta segir hún enn fremur í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert