„Íslenskur“ hrókur metinn á milljón pund

Hrókurinn hefur ef til vill látið töluvert meira á sjá …
Hrókurinn hefur ef til vill látið töluvert meira á sjá en bræður hans úr taflinu. Ljósmynd/Sotheby's

„Í mörg ár hafði hann hvílt í skúffu á heimilinu hennar, þar sem hann hafði verið vafinn í lítinn poka. Af og til tók hún hann úr skúffunni til að dást að því hversu einstakur hann var.“

Svona segir Skoti nokkur frá því hvernig hrókur, sem gæti verið metinn á allt að milljón sterlingspunda, leyndist á meðal eigna fjölskyldu hans allt frá árinu 1964 og til dagsins í dag.

„Hún trúði því að hann væri sérstakur og að gæti jafnvel búið yfir einhvers konar töfrum,“ segir Skotinn um móður sína, sem erfði hrókinn frá föður sínum.

Hrókurinn er einn fjölmargra taflmanna sem fundust árið 1831 grafnir í söndugri strönd á skosku eyjunni Lewis, en eyjarinnar er getið í fornum íslenskum heimildum á borð við Heimskringlu og Flateyjarbók og er þar nefnd Ljóðhús.

Af þeim sem fundust eru 82 taflmenn í vörslum British Museum og ellefu til viðbótar innan veggja skoska þjóðminjasafnsins. Fram til þessa hefur aftur á móti ekki verið vitað um afdrif fimm taflmanna til viðbótar, það er um fjóra hróka og einn riddara.

Nú er einn hinna týndu hróka fundinn, eftir að eigandinn ákvað að láta að meta hann hjá uppboðshúsinu Sotheby's í Lundúnum.

Hrókurinn var geymdur ofan í skúffu móður eigandans til fjölda …
Hrókurinn var geymdur ofan í skúffu móður eigandans til fjölda ára. Ljósmynd/Sotheby's

Tilgáta um íslenskan uppruna sett fram árið 1832

Sérfræðingur uppboðshússins í evrópskum höggmyndum og öðrum listverkum segist hafa misst andlitið þegar honum varð ljóst hvers kyns gripurinn væri, að því er segir í umfjöllun Guardian.

Hrókurinn komst í eigur fjölskyldunnar þegar afi núverandi eiganda, forngripasali, keypti hann fyrir fimm pund, árið 1964 eins og áður sagði. Sotheby's telur virði hans nú geta numið allt frá 600 þúsund pundum og upp í eina milljón punda.

Taflmennirnir eru enda afar merkir gripir og þykja jafnvel á meðal þeirra merkustu í fórum British Museum, þar sem þó er af nógu að taka. Þeir eru skornir úr rostungstönnum að mestu, sumir úr hvaltönnum, og eru taldir vera frá tímabilinu 1150 til 1200.

Viðtekin skoðun meðal fræðimanna er að þeir séu norsk smíði, þar sem aðeins háþróað borgarumhverfi handverksmanna hafi megnað að geta af sér slíka gripi, eins og segir í fréttaskýringu Morgunblaðsins árið 2015.

Nær tvö hundruð ár eru hins vegar síðan sett var fram tilgáta um íslenskan uppruna taflmannanna. Það gerði breskur fornleifafræðingur, Francis Madden að nafni, árið 1832 eða aðeins ári eftir að þeir fundust í Ljóðhúsum.

Taflmennirnir fundust allir í Ljóðhúsum árið 1831. Um afdrif fimm …
Taflmennirnir fundust allir í Ljóðhúsum árið 1831. Um afdrif fimm þeirra hefur ekki verið vitað, en nú hefur þeim fækkað í fjóra.

Röksemdir Guðmundar

Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur færði enn fremur rök fyrir þessari tilgátu í grein sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins árið 2009, og undir þau er tekið í bók þekkts bandarísks höfundar, Nancy Marie Brown, sem kom út árið 2015 og nefnist Ivory Vikings. The Mystery of the Most Famous Chessmen in the World and the Woman Who Made Them.

Setur Guðmundur fram eftirfarandi rök fyrir íslenskum uppruna taflmannanna:

  1. Ekki er vitað til þess að orðið biskup hafi verið notað um taflmann í Noregi, hvorki áður fyrr né nú. Það er aðeins notað á Íslandi og í enskri tungu. Heimildir sýna að orðið biskup er notað á Íslandi um 1300 en á Englandi á seinni hluta fimmtándu aldar.
    Heimildir benda til að um árið 1475 hafi Englendingar hætt að nota orðið aufin og tekið að nota orðið biskup fyrir þennan mann. Þegar Lewistaflmennirnir eru skornir eru þessir taflmenn aðeins nefndir biskupar á Íslandi og líklegt að þeir séu skornir hér á biskupssetri og biskupi hafi fundist vel við eiga að mennirnir við hlið konungshjónanna væru biskupar.
    Reynist þetta rétt taka Englendingar orðið biskup í skák eftir Íslendingum og dr. Helgi Guðmundsson bendir á að þessu tímatali beri saman við ensku öldina þegar samskipti við Englendinga voru veruleg. Dr. Helgi spyr síðan hvort finna megi hvar Englendingar byrji að nota orðið biskup í þessari merkingu, hvort það gæti verið t.d. í Bristol eða á öðrum heimaslóðum þeirra fyrirtækja sem gerðu út á Íslandsmið á þessum tíma.
  2. Riddararnir eru á hestum sem virðast vera íslenskir, stærð og höfuðlag.
  3. Hrókar eru berserkir sem voru mjög ofarlega í hugum Íslendinga en ekki eru til ritaðar heimildir um þá í Noregi frá þessum tíma.
  4. Á þessum tíma eru skreytilist og útskurður þróuð á Íslandi. Mörg dæmi eru og um að biskupar á Íslandi senda eða fara með gripi útskorna úr rostungstönn sem gjafir til útlanda. Á biskupsstólunum unnu listamenn, gullsmiðir og skurðmeistarar og beinlínis sagt í heimildum að þar hafi verið smíðað úr rostungstönnum.
  5. Tengsl Íslands við Grænland voru á þessum tíma mikil. Íslendingar námu Grænland og fluttust þangað á mörgum skipum. Grænlendingar áttu því vini og frændur hér. Heimildir segja frá biskupsskipum sem fluttu varning frá Grænlandi á þessum tíma. Tengsl við Grænland rofna þegar Íslendingar eiga ekki lengur skip. Íslendingar höfðu því undir höndum rostungstennur og fleira frá Grænlandi.
  6. Skip með Lewistaflmennina frá Íslandi gæti hafa brotnað við eyna Ljóðhús á leið til Dyflinnar og taflmönnunum skolað upp í sandinn á eyjunni. Það segir nokkuð að mennirnir eru úr 4 taflsettum en vantar í þau öll, sem bendir til að glatast hafi. E.t.v. gætu leynst fleiri gripir þarna í sandinum. Íslendingar seldu varning sinn mikið í Írlandi því að í Noregi þurfti að greiða toll, landaura.
  7. Í ritinu Sagnaritun Oddaverja eru leiddar líkur að því að Oddaverjar hafi ritað Orkneyingasögu. Vinátta hefur verið á milli Páls biskups og Orkneyinga á þeim tíma sem hér um ræðir og samskipti talsverð, segja sögur að gjafir gengu á milli. Stutt er þá yfir til Suðureyja.
  8. Til gamans mætti setja fram þá tilgátu að Lewistaflmennirnir hafi verið gerðir undir handarjaðri Páls biskups í Skálholti og smíðaðir af Margréti högu, sem annáluð var fyrir hve oddhög hún var. Mennirnir verið sendir utan til gjafar eða sölu þegar skipið fórst.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert