Stólar á að þingmenn finni til ábyrgðar

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að hann vonist til …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að hann vonist til þess að þingmenn finni til ábyrgðar til þess að sinna þeim verkefnum sem þeir eru kjörnir til þess að sinna. mbl.is/​Hari

„Það gekk ekki vel í dag og við erum svolítið búin að taka skref til baka, má segja, í þeim efnum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis í samtali við mbl.is, spurður hvernig gangi að ná samkomulagi um þinglok. Fundur formanna allra flokka í dag um það skilaði engri niðurstöðu.

Um 40 mál liggja fyrir Alþingi og nokkur eiga enn eftir að bætast við frá nefndum. „Svo bíður auðvitað stórt verkefni sem er fjármálaáætlun, en dagskráin er svona nokkurn veginn farin að sýna það sem framundan er og það verður ekkert gefist upp við það,“ segir Steingrímur.

„Við fundum frekar inn í sumarið heldur en að láta það um okkur spyrjast að við skilum ekki af okkur einhverju sæmilegu verki hérna, eftir langan og starfsaman vetur,“ segir Steingrímur og bætir við að fundað verði stíft og lengi áður en gefist verði upp á því að klára þau mál sem þarf að klára.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við RÚV í dag að hún hefði lagt til við formenn flokkanna að afgreiðslu mála sem deilt hefur verið um í þinginu, eins og þriðja orkupakkans, yrði frestað fram í ágúst. Hún sagði „ekkert sérstaklega vel“ hafa verið tekið í þá hugmynd. Steingrímur staðfestir að sú hafi verið raunin.

„Það var uppi sú hugmynd að taka einhver mál á einhverju stuttu síðsumarsþingi, ef að það væri einhver lausn á málinu. Katrín, sem er búin að leggja nótt við dag við að reyna að ná einhverju samkomulagi var búin að opna á að skoða það. En svo dugði það ekki til og þar með slitnaði upp úr þessu í bili. Við erum bara á sama stað, með verkefnið fyrir framan okkur og við sjáum til hvernig við leggjum í daginn á morgun,“ segir Steingrímur.

Orðin lengsta umræða sögunnar

Þingfundi var slitið nokkuð snemma í kvöld og annar boðaður kl. 10 í fyrramálið, en í dag áttu sér stað þau tímamót að umræða um þriðja orkupakkann náði því að verða lengsta umræða sem hefur átt sér stað í þinginu frá upphafi, en á fimmta tímanum sló hún fyrra met sem var sett er Alþingi ræddi um Icesave-samningana árið 2010.

Steingrímur segir að það hafi verið ágætt að slíta fundi snemma í kvöld. Það gefi þingmönnum ef til vill „tíma til þess að stíga eitt skref til baka og hugsa sinn gang.“

„Ég stóla á það að allir finni til ábyrgðar hjá sjálfum sér á þeim verkefnum sem við erum kjörin til að sinna. Ég mun láta á það reyna á morgun og eftir atvikum næstu daga, að menn standi undir þeirri ábyrgð,“ segir Steingrímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert