Kallaði Steingrím harðstjóra

Jón Þór Ólafsson var harðorður í garð forseta Alþingis.
Jón Þór Ólafsson var harðorður í garð forseta Alþingis. mbl.is/​Hari

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, harðlega á fyrstu klukkstund þingfundar í morgun fyrir að breyta dagskrá þingsins og færa umræðuna um þriðja orkupakkann aftast í röðina í dag.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, líkti honum við harðstjóra fyrir að fara ekki eftir settum reglum, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði hann kranablaðamann ríkisstjórnarinnar vegna viðtals við hann á mbl.is seint í gærkvöldi og Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði hann einráðan.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Hari

Logi sagði það hafa komið sér á óvart þegar hann las dagskrá þingsins að henni hefði verið breytt og orkupakkinn væri ekki fyrstur á dagskrá. Það sé þvert á það sem þingflokksformenn sögðu að rætt hefði verið um á fundi með Steingrími. Sagði hann að eðlilegt hefði verið að láta þingflokksformenn vita fyrst af þessari breytingu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði merkilegt að dagskrá þingsins hefði verið breytt í skjóli nætur án samráðs við þingflokksformenn. Hún sagði erfitt að reiða sig á það sem forsetinn segði í framtíðinni vegna þess. 

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Steingrímur sagði dagskrána taka mið af þeim aðstæðum sem eru uppi. Þingstörf séu komin fram yfir þann tíma sem starfsáætlun tók til. Áhersla verði lögð á forgang þeirra mála sem eru tilbúin til afgreiðslu. Sagðist hann treysta því að þingmenn geti notað daginn vel til að afgreiða fyrst þau mál sem full samstaða er um og nefndi að um 50 mál bíði afgreiðslu.

„Forseti er einráður núna þegar það er búið að taka starfsáætlun úr sambandi,“ sagði Halldóra Mogensen. Steingrímur svaraði þannig að forseti hafi alveg eins á tilfinningunni að hann ráði ekki neinu.

„Forseti undrast ef menn eru ekki tilbúnir til að reyna að nýta tímann í eitthvað annað sem hugsanlega skilar okkur einhverju,“ sagði hann og bætti við að það komi sér á óvart ef menn taka því illa ef byrjað er á þeim málum sem full samstaða er um.

Oddný G. Harðardóttir.
Oddný G. Harðardóttir. mbl.is/Eggert

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði augljóst að sett hafi verið í gang leikrit. Kastljósinu hafi verið beint að ósætti um dagskrá þingsins en ekki á vandræðagang ríkisstjórnarinnar sem nái ekki að ljúka við fjármálaáætlun.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sagðist ekki geta sleppt góðu málþófi en að forseti Alþingis sýndi minnihlutanum fullkomið virðingarleysi.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði örfáa daga síðan sömu þingmenn og núna gagnrýndu forseta Alþingis stóðu að tillögu um að umræða um þriðja orkupakkann yrði sett aftast á dagskrá. Nú hafi það einmitt verið gert. Sagði hann þarna vera á ferðinni „klækjastjórnmál“.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert