Ísland enn á ný friðsælast

Ísland er eina Norðurlandið sem er friðsælla nú en árið …
Ísland er eina Norðurlandið sem er friðsælla nú en árið 2008. Myndin er tekin á kertafleytingu samtaka hernaðarandstæðinga. mbl.is/Golli

Ísland er friðsælasta land heims enn eitt árið samkvæmt friðarvísi Stofnunar um hagsæld og frið (Institue of Economics and Peace’s Global Peace Index) sem gefinn var út á dögunum. Ísland ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir en fleiri stigum munar á Íslandi og Nýja-Sjálandi, sem er í öðru sæti, en nokkrum öðrum aðliggjandi þjóðum.

Á hæla Nýja-Sjálands fylgja Portúgal, Austurríki og Danmörk, en í tuttugu efstu sætum listans eru 14 Evrópuþjóðir og er álfan langsamlega friðsælust. Neðsta sætið vermir Afganistan, sem hefur sætaskipti við Sýrland, en skammt undan eru Suður-Súdan, Jemen, Írak og Sómalía.

Listinn var endurreiknaður afturvirkt

Ísland hefur nú trónað á toppi listans öll árin síðan 2008 er fjöldi þeirra ríkja, sem skýrslan nær til, var stóraukinn og Íslandi bætt í hópinn, og er þess getið í útdrætti á heimasíðu samtakanna. Í skýrslum áranna 2009 og 2010, í kjölfar bankahrunsins og óeirða sem því fylgdu, missti Ísland að vísu af toppsætinu.

Þegar mbl.is spurðist fyrir um þetta ósamræmi fengust svör frá upplýsingafulltrúa stofnunarinnar að betri gögn hafi hins vegar fengist nokkrum árum síðar um stöðu mála hér á landi. Í samræmi við það hafi listinn verið endurreiknaður afturvirkt og niðurstaðan að Ísland hafi í raun verið á toppnum öll árin. 

Stofnun um hagsæld og frið metur áhrif ofbeldis á heimshagkerfið töluverð, eða á um 14.100 milljarða bandaríkjadala, upphæð sem varla tekur því að yfirfæra í íslenskar krónur. Er það um 11,2 prósent heimsframleiðslunnar.

Heimur lítillega batnandi fer

Meðal þeirra þátta sem litið er til við gerð listans eru glæpatíðni, hryðjuverkaógn, fjöldi fanga, alþjóðlegar deilur sem lönd eiga aðild að, hernaðarumsvif og aðgengi að vopnum. Eini flokkurinn þar sem Ísland er ekki á meðal efstu þjóða er sá um alþjóðlegar deilur, en ætla má að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafi þar mest að segja. Heilt yfir eykst friðsæld í heiminum lítillega frá friðarvísi síðasta árs, og er það viðsnúningur frá hnignun sem einkennt hefur undanfarinn áratug. Enn er heimurinn þó talinn minna friðsamur en fyrir áratug.

Jákvæð þróun þetta árið er meðal annars skýrð með minnkandi hernaðarumsvifum undanfarin áratug, og segir stofnunin það vera þvert á það sem margir myndu halda. Hermönnum hefur á tíu ára tímabili fækkað, miðað við höfðatölu, í 117 löndum og útgjöld til hernaðarmála að sama skapi dregist saman í 98 löndum, samanborið við 63 lönd sem auka útgjöldin. Aðrir þættir sem teljast heimsfriði til tekna eru aukin framlög til friðargæsluliða, færri dauðsföll í alþjóðlegum deilum, fækkun morða og minni vopnaflutningur á milli landa.

Á móti hefur föngum heimsins fjölgað og ofbeldisfullum mótmælum sömuleiðis. Hryðjuverka- og kjarnorkuógn hefur einnig aukist auk þess sem það er upplifun almennings að glæpatíðni hafi aukist og telst það vinna gegn heimsfriði þrátt fyrir að það mat fólks gangi í berhögg við staðreyndir máls.

Attachment: "Skýrslan í heild sinni" nr. 11144


 

Í bók sinni, Factfulness, skrifar gagnagrúskarinn Hans Rosling heitinn um …
Í bók sinni, Factfulness, skrifar gagnagrúskarinn Hans Rosling heitinn um þá tilhneigingu manna að telja að allt sé á leið til fjandans þrátt fyrir að flestir hagvísar bendi til hins þverstæða.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert