„Komast einhvern tímann út í sumarið“

Steingrímur J. Sigfússon gerði hlé á þingfundi til 12.
Steingrímur J. Sigfússon gerði hlé á þingfundi til 12. mbl.is/​Hari

„Ósk hefur borist um að nú verði gert hlé á þessum fundi og mun forseti verða við því, þó að tíminn sé orðinn dýrmætur okkur þingmönnum ef við viljum komast einhvern tímann út í sumarið eða haustið. En í von um að það verði þá mikils metið og við vinnum upp þann tíma sem nú fer í fundarhléð verður þessum fundi frestað til klukkan 12,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Þingfundi hefur verið frestað til hádegis en á þeim 9 mínútum sem hann stóð, frá um 10.33 til 10.42, voru atkvæði greidd um 10 mál. 

Sameiginleg umsýsla höfundarréttar var afgreidd úr annarri umræðu í þriðju umræðu svo að segja með einróma atkvæðagreiðslum.

Þessi frumvörp voru samþykkt endanlega og send til ríkisstjórnar: frumvarp um þjóðgarðinn á Þingvöllum, frumvarp um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, frumvarp um stjórnsýslu búvörumála, frumvarp um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, frumvarp um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, frumvarp um skráningu raunverulegra eigenda, frumvarp um verðbréfaviðskipti og frumvarp um meðferð einkamála.

Þegar greidd voru atkvæði um stjórnsýslu búvörumála gerði Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata grein fyrir atkvæði sínu þar sem hann sagði heillaskref að færa stjórnsýslu búvörumála yfir til ráðuneytis frá Matvælastofnun, ef rétt væri að staðið.

Þingfundur hefst aftur klukkan 12 og eru þá nokkur mál til umræðu sem eru stödd í annarri umræðu. Þar á meðal er frumvarp um kjararáð, Þjóðarsjóð, sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og um fiskeldi. Að loknum þessum umræðum er þriðji orkupakkinn í 20. sæti. Enn liggur ekki fyrir hvenær breytt fjármálaáætlun kemur úr nefndum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert