Hiti náði 22 stigum í höfuðborginni

Brakandi blíða var í höfuðborginni í dag.
Brakandi blíða var í höfuðborginni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hiti fór yfir 20 stig víða á landinu í dag, þar með talið á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og er það í fyrsta sinn á þessu ári, að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Mestur mældist hitinn á Geldinganesi þar sem hann náði tæpum 22 stigum.

„Hitinn fór hæst á stórhöfuðborgarsvæðinu, á Geldinganesi þar sem hann fór í tæp 22 stig, og einnig á Reykjavíkurflugvelli. Á veðurstöðinni hjá okkur fór hann einnig yfir 20 stig,“ segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur.

Skil og rigning um land allt á þriðjudag

Á morgun er von á svipuðu veðri og var í dag, nema rignir suðaustanlands. „Hiti fer örugglega yfir 20 stig á Vesturlandi á morgun, jafnvel í höfuðborginni en það er þó ekki jafn líklegt og í dag,“ segir Daníel. Á sunnudag verður áfram hæg, austlæg átt og stöku skúrir sunnan til en þurrt annars staðar.

„Svo á þriðjudag koma skil yfir með rigningu um allt land, það hefur verið í kortunum í dag og það verður fróðlegt að sjá hvort það haldist. Það væri nú fínt að vökva gróðurinn aðeins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert