„Segir einhver nei við þessu?“

Aldís Amah Hamilton fjallkona.
Aldís Amah Hamilton fjallkona. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fékk símtal fyrir sex vikum þar sem ég var beðin um þetta,“ segir Aldís Amah Hamilton, sem fyrst kvenna af erlendum uppruna brá sér í hlutverk fjallkonunnar í Reykjavík í tilefni þjóðhátíðardagsins.

„Þau voru mjög varfærin í símann og spurðu hvort ég hefði nokkurn áhuga á þessu. Ég velti því fyrir mér hvort það segði einhver nei við þessu boði,“ segir Aldís, sem segist hafa dreymt um hlutverkið í mörg ár.

Aldís útskrifaðist af leikarabraut Listaháskólans vorið 2016. Hún segist þó ekki hafa gert sér miklar vonir um að verða útnefnd fjallkona. Fyrir það fyrsta er hlutverkið jafnan í höndum þekktari leikkvenna, og þá hafi það ekki gerst áður, í Reykjavík í það minnsta, að fjallkonan sé leikkona af blönduðum uppruna, segir Aldís, en faðir hennar er Bandaríkjamaður af afrískum uppruna.

Hún hefur áður talað opinskátt um áskoranir sem hún, sem lituð leikkona á Íslandi, stendur frammi fyrir og nefnir sem dæmi að henni hafi reglulega verið ruglað saman við aðra bekkjarsystur sína þar sem þær eiga það sameiginlegt að eiga erlent foreldri og vera dökkar yfirlitum. Hins vegar hafi hún ekki orðið fyrir miklum fordómum og fengið mörg frábær tækifæri, líkt og í dag.

Bubbi Morhtens, tónlistarmaður og ljóðskáld samdi ljóðið sem Aldís flutti …
Bubbi Morhtens, tónlistarmaður og ljóðskáld samdi ljóðið sem Aldís flutti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki öll steypt í sama hvíta mót

Við athöfnina í morgun flutti Aldís ljóð Bubba Morthens, Landið flokkar ekki fólk, sem veltir upp spurningum um ímynd þjóðar. Aldís segir að þótt hún hafi hér verið holdgervingur fjallkonunnar geti hún ekki á neinn hátt sett sig í spor flóttafólks sem flýr stríðshrjáð land, enda sé hún fæddur og uppalinn Íslendingur. Bubbi hafi enda ekki haft hana í huga þegar ljóðið var samið. Útnefning fjallkonunnar er nefnilega leyndarmál fram á þjóðhátíðardag.

„Mér finnst það sýna ákveðið hugrekki að útnefna mig sem fjallkonuna,“ segir Aldís og viðurkennir að hún hafi verið mjög stressuð fyrir deginum og búið sig undir það versta, einkum í ljósi mótmæla sem stundum hafa farið fram við athöfnina undanfarin ár. Allt hafi þó gengið vonum framar. „Ég sá ekki annað en bros á hverju andliti. Mér finnst við langt komin í málum litaðra Íslendinga en við þurfum að halda áfram að víkka okkar eigin sjóndeildarhring,“ segir Aldís. Þjóðin þurfi að geta sagt skilið við þá úreltu staðalímynd að allir Íslendingar séu steyptir í sama hvíta mót.

Vinnur í fyrsta íslenska hreyfiföngunarverinu

Samhliða undirbúningnum fyrir fjallkonuhlutverkið hefur Aldís síðustu misserin unnið að tölvuleik sem ber nafnið The Darken og er gefinn út af íslenska fyrirtækinu Myrkur Games. Fyrirtækið hefur byggt fyrsta hreyfiföngunarverið (e. motion capture studio) á Íslandi, þar sem hreyfingar leikara eru fangaðar og úr verður vera á tölvuskjánum.

Aldís fer þannig með hlutverk aðalkaraktersins í leiknum, en fjöldi annarra íslenskra leikara kemur að leiknum og má þjóðin eiga von á að fá að heyra af þeim þegar nær dregur útgáfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert