Orkupakkamálið búið 2. september

Þinginu ætti að ljúka í vikunni, að sögn Birgis Ármannssonar …
Þinginu ætti að ljúka í vikunni, að sögn Birgis Ármannssonar þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

„Auðvitað felst ákveðin tilslökun í þessu gagnvart Miðflokknum, að fresta lokaþætti orkupakkamálsins fram í ágústlok en eins og er má segja að af hálfu stjórnarflokkanna er mikilvægt að losa þann hnút sem þingstörfin voru komin í,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is um nýjan þinglokasamning. 

Í samkomulagi um þinglok var fallist á að fresta afgreiðslu þriðja orkupakkans fram í ágúst, fram að framhaldsfundi þessa löggjafarþings sem þá verður haldinn. Að sögn Birgis er ákveðin dagsetning á þeim þingstubbi um mánaðamót ágúst og september, þar sem orkupakkinn verður endanlega afgreiddur.

Birgir telur allar líkur á að þingið klárist að öðru leyti í þessari viku. „Ég geri ráð fyrir að umræðu um fjármálaáætlun og fjármálastefnu verði lokið innan fjárlaganefndar í fyrramálið og þinglegri meðferð á næstu tveimur sólarhringum, ef áform standast,“ segir hann.

Hefði verið verra að fresta OP3 alveg fram á haust

„Miðflokkurinn gerði eins og menn vita kröfu um að orkupakkamálinu yrði ekki lokið í þessari lotu. Það var því niðurstaða að fallast á það til að greiða fyrir úrlausn þingstarfanna. Þó er mikilvægt mikilvægt að það liggur jafnframt fyrir að málið verður endanlega leitt til lykta á þessum stubbi í lok ágúst,“ segir Birgir.

Hann leggur áherslu á að málinu hafi ekki verið frestað fram á næsta þing, eins og var upphafleg krafa Miðflokks, heldur aðeins fram á stubbinn, framhaldsfund þingsins. Hitt hefði að sögn Birgis verið talsvert umfangsmeira, þ.e. að hefja málsmeðferðina upp á nýtt á næsta þingi.

„Þetta er einhver málamiðlun en auðvitað snúast hlutirnir fyrst og fremst um það þegar upp er staðið að þau mál sem ríkisstjórnarflokkar og meirihluti þingsins leggi áherslu á fái eðlilegar lyktir í samræmi við afstöðu meirihluta þingmanna,“ segir Birgir.

Gengist að hluta við kröfum Miðflokks

Helstu kröfur Miðflokksmanna voru um frestun orkupakkans og frestun gildistöku laga um innflutning á ófrosnu kjöti. Gengist var við hinni síðarnefndu, svo tveimur mánuðum nemur.

„Það liggur fyrir að hráa kjötið, þ.e. frumvarp um dýrasjúkdóma og fleira, því máli verður lokið á næstu dögum en gildistöku verður þó frestað frá 1. nóvember til 1. janúar 2020,“ segir Birgir.

„Öllum öðrum málum ríkisstjórnarinnar verður annars lokið núna á næstu dögum að undanskildum þjóðarsjóði sem stjórnarflokkarnir höfðu samið við hina stjórnarandstöðuflokkana í síðustu viku um að geyma,“ segir Birgir að lokum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að niðurstaðan um þinglok væri efnislega sú sama og hún hefði lagt fram fyrir nokkrum vikum. Þá lagði hún til vegna umræðna um þriðja orkupakkann að afgreiðslu málsins yrði frestað en eins og fram kemur hér að ofan verður málið afgreitt með þingstubbi um mánaðamótin ágúst/september.

„Ég tel mikilvægt að við ljúkum þessu þingi í samkomulagi,“ sagði Katrín. „Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að endurskoða þingsköpin. Ég held að það sé löngu tímabært,“ bætti Katrín við.

Uppfært 19.54: 

Mbl.is hefur það samkvæmt öðrum áreiðanlegum heimildum að nánar tiltekið standi til að afgreiða endanlega þingsályktun um þriðja orkupakkann 2. september 2019.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert