61,25% vilja undanþágu frá orkulöggjöf ESB

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Maskína vann fyrir samtökin Heimssýn dagana 12.-18. júní eru um 61,25% þeirra sem afstöðu tóku fylgjandi því að Ísland fái undanþágu frá orkulöggjöf Evrópusambandsins en um 38,75% eru andvíg.

Í könnuninni kemur einnig fram að um 53% af þeim sem afstöðu tóku vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um innleiðingu þriðja orkupakkans, en 47% eru því andvíg. Þá sögðust tæp 59% andvíg því að heimila innflutning á fersku eða ófrosnu kjöti, en um 41% var fylgjandi því.

Afgreiðslu þriðja orkupakkans verður frestað fram að framhaldsfundi núverandi þings, sem haldið verður um mánaðamótin ágúst-september, samkvæmt samkomulagi um lok þingstarfa sem náðist í gær eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks ræddu óformlega saman um helgina. Þá verður gildistöku frumvarps um dýrasjúkdóma, sem veitir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimild til að leyfa innflutning á hráum eða lítt söltuðum kjötafurðum, frestað um tvo mánuði.

„Þetta er einhver málamiðlun en auðvitað snúast hlutirnir fyrst og fremst um það þegar upp er staðið að þau mál sem ríkisstjórnarflokkar og meirihluti þingsins leggi áherslu á fái eðlilegar lyktir í samræmi við afstöðu meirihluta þingmanna,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert