Greiddu atkvæði með fullri aðild Rússa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, er ein tveggja fulltrúa …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, er ein tveggja fulltrúa Íslands á þingi Evrópuráðsins í Strassborg. Eggert Jóhannesson

Rússum hefur verið veitt full aðild á ný að þingi Evrópuráðsins. 190 þingmenn frá öllum löndum Evrópu sitja á þinginu og greiddu 118 atkvæði með tillögunni, þar á meðal báðir fulltrúar Íslands, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna. Meirihluti var fyrir ákvörðuninni hjá flestum ríkjum, en andstaða áberandi meðal ríkja sem áður voru undir hæl Sovétríkjanna, auk Breta og Svía.

Rússar voru sviptir kosningarétti sínum á þingi Evrópuráðsins árið 2014 og ákvað ríkið í kjölfarið að sniðganga fundi þingsins. Frá árinu 2017 hefur ríkið neitað að greiða árlegt framlag sitt til ráðsins, sem hljóðar upp á 33 milljónir evra, um 7% af heildarframlögum ráðsins. Þá höfðu rússnesk stjórnvöld hótað að segja sig úr Evrópuráðinu, og með því Mannréttindadómstól Evrópu, ef kosningaréttur rússneskra þingmanna yrði ekki endurreistur.

Mikilvægt að tryggja mannréttindi íbúa

Rósa Björk er formaður Íslandsdeildar og auk þess varaforseti þings Evrópuráðsins. Hún segir ákvörðunina um að veita fulltrúum Rússlands atkvæðisrétt á ný vera tekna vegna þess hve mikilvægt er að fá Rússa aftur að borðinu, einkum með hliðsjón af mannréttindum íbúa.

Samkomusalur Evrópuráðsþingsins í Strassborg. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segoist vonsvikinn …
Samkomusalur Evrópuráðsþingsins í Strassborg. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segoist vonsvikinn með ákvörðun ráðsins að veita Rússum fulla aðild að fundum þess á ný. AFP

Undanfarin ár hafi ríkið til að mynda neitað Evrópuráðinu að starfa í Rússlandi og sinna þar kosningaeftirliti og fleiru. Slíkt sé bagalegt fyrir íbúana. Í morgun hafi ríkið þó skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að ríkið hyggist standa við öll gildi ráðsins og skuldbindingar sem eru innifaldar í því að vera meðlimur Evrópuráðsins. Rússar höfðu áður hótað því, óbeint í það minnsta, að segja sig úr Evrópuráðinu ef ekki þingmönnum þeirra yrði ekki veittur atkvæðisréttur á ný, þó Rósa vilji ekki kannast við þær hótanir og neiti því að Evrópuríki séu með þessu að lúffa fyrir ríkinu.

Mannréttindadómstóll Evrópu er ein stofnana Evrópuráðsins og bendir Rósa á að Rússland sé, ásamt Tyrklandi, það ríki sem flestir úrskurðir dómstólsins varði. Mörg mál frá íbúum landsins gegn rússneskum stjórnvöldum séu rekin fyrir dómnum, og nauðsynlegt sé að verja þann rétt íbúanna til að gæta mannréttinda sinna.

Úkraínskir þingmenn, sem eiga sæti í ráðinu, gengu út af fundinum í morgun í mótmælaskyni. Volodymyr Zelenskiy, nýkjörinn forseti Úkraínu, lýsir á Facebook-síðu sinni vonbrigðum með ákvörðunina og segist hafa setið einkafundi með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Emmanuel Macron, forseta Frakklands, þar sem hann reyndi að tala um fyrir þeim.

Er þetta í fyrsta sinn sem refsiaðgerðir, sem Evrópuríki hafa beitt Rússland undanfarin ár eftir ólöglega innlimun Krímskaga, eru afturkallaðar. Í yfirlýsingunni segir að aðgerðinni sé ætlað að „tryggja réttindi og skyldur aðildarríkja til þátttöku í stofnunum Evrópuráðsins“.

Leiðtogar Evrópusambandsríkja hafa þó ítrekað að þessi ákvörðun feli ekki í sér að efnahagslegar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins, sem Íslendingar taka þátt í, verði afturkallaðar.

47 ríki eiga aðild að Evrópuráðinu, öll ríki álfunnar nema Vatíkanið og Hvíta-Rússland en síðarnefnda ríkið hefur ekki leyfi til aðildar þar sem dauðarefsingar eru þar í lýði og brjóta þær í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert