Milljarðar tapast á hverju ári

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. mbl.is/​Hari

Milljarðar króna sem eiga að fara í ríkissjóð tapast á ári hverju vegna kennitölumisnotkunar íslenskra fyrirtækja. Um er að ræða háttsemi sem ekkert á skylt við atvinnurekstur heldur er þetta að sögn Sigurðar Jenssonar, sérfræðings hjá skattrannsóknarstjóra, ein birtingarmynd skipulagðar brotastarfsemi.

Í nýlegu áhættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra er áhættan á skattundanskotum vegna skipulagðrar glæpastarfsemi metin sem „gífurleg“ eða á hæsta stigi.

Að sögn Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra eru vísbendingar um að hér á landi séu erlendir glæpahópar að hasla sér völl sem herji hugsanlega á þessa veikleika íslenska skattkerfisins.

Þessa stundina hefur skattrannsóknarstjóri til rannsóknar nokkur mál þar sem óprúttnir aðilar hafa keypt félög, sett aðila í stjórn til málamynda sem engin eiginleg tengsl hafa við reksturinn og misnota síðan kennitölu lögaðilans og virðisaukaskattsnúmer hans. Er það meðal annars gert með þeim hætti að gefnir eru út tilhæfulausir reikningar til annarra félaga sem nýta þá til þess að lækka hjá sér virðisaukaskatt sem á að koma til greiðslu, lækka tekjuskattsgreiðslu af hagnaði, ná fjármunum út úr fyrirtækjum án greiðslu skatts eða til þess að greiða starfsfólki dulin laun í formi reiðufjár.

Misnotkunin snýr að því að komast yfir kennitölu lögaðila sem er með opið virðisaukaskattsnúmer en einnig eru til dæmi um að kennitölur einstaklinga séu misnotaðar með þessum hætti. Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður að núverandi lagaumhverfi geri ekki ráð fyrir háttsemi af þessum toga og að mikilvægt sé að spornað sé gegn henni með hertu lagaumhverfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert